Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 05. ágúst 2022 16:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Magnað afrek hjá Hólmfríði sem mætti óvænt aftur
Sneri aftur á völlinn fjórum og hálfum mánuði eftir fæðingu
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmfríður með syni sínum.
Hólmfríður með syni sínum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Selfossi í fyrra.
Í leik með Selfossi í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmfríður Magnúsdóttir, einhver besta fótboltakona sem Ísland hefur alið af sér, sneri aftur á fótboltavöllinn í gær er Selfoss gerði jafntefli við ÍBV í Bestu deild kvenna.

Hólmfríður tilkynnti það á síðasta ári að hún væri ólétt og því hefði hún ákveðið að leggja skóna á hilluna.

En núna er hún mætt aftur og ætlar að hjálpa sínu félagi, Selfossi, á tímabilinu sem er í gangi. Hólmfríður eignaðist sitt annað barn fyrir fjórum og hálfum mánuði síðan.

„Ég skráði mig á hlaupanámskeið hjá Hildi Gríms á Selfossi. Ég var búin að vera hlaupa í þrjár vikur og þá fór ég að hugsa að ég væri ekki gerð fyrir að æfa ein enda alltaf búin að vera í hópíþrótt. Ég saknaði klefans og svo er miklu skemmtilegra að hlaupa og sparka í bolta," segir Hólmfríður.

Erfið meðganga og erfið fæðing
Meðgangan var erfið hjá Hólmfríði og fæðingin var löng. „Ég átti mjög erfiða meðgöngu, 42 vikur. Fæðingin var líka mjög erfið, yfir 30 klukkutímar."

Það er ekkert grín að koma til baka eftir meðgöngu, en Hólmfríður og fleiri hafa sýnt að það er hægt að vera bæðir móðir og afreksíþróttakona.

„Það er ekkert sjálfgefið að geta gert þetta, að vera næstum því 38 ára. Ég ætla bara að njóta þess. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er langt frá því að vera í mínu besta formi. Ég á langt í land, en á meðan ég get gefið liðinu eitthvað þá er það bara jákvætt. Barnið mitt er bara fjögurra og hálfs mánaða og það er geggjað að geta gert þetta."

„Ég spilaði síðasta leik minn í fyrra seinni partinn í júlí. Ég spilaði held ég þrjá eða fjóra leiki ólétt og svo sagði líkaminn stopp. Ég var næstum því ár í burtu. Ég er búin að hafa fyrir þessu. Maður byrjar gjörsamlega frá núllpunkti. Ég er búin að gera endalaust af æfingum sem maður verður að gera til að styrkja allan grunn aftur. Ég byrjaði algjörlega frá núllpunkti. Þegar hún var sex eða átta vikna byrjaði ég að skokka og það voru bara 15 sekúndur í einu. Ég held að fólk geri sér ekki alveg stundum grein fyrir því að þetta er ekki bara að koma til baka og henda sér út á völl sko, þetta er mjög mikil vinna."

Gekk ótrúlega vel
Á meðan Evrópumótið í Englandi fór fram þá var frí á Íslandsmótinu á meðan. Hólmfríður ákvað að heyra Birni Sigurbjörnssyni á meðan fríið stóð yfir.

„Ég bjallaði í Bjössa (þjálfara Selfoss) og spurði hvort það væri hægt að gera prógramm fyrir mig, styrktarprógramm fyrir konu sem er að koma til baka. Það var mikið af svona litlum æfingum sem ég gerði í tvær vikur. Svo langaði mig alltaf að prófa að æfa fótbolta í tvær vikur og sjá hvernig það myndi fara í skrokkinn á mér," segir Hólmfríður.

„Þessar tvær vikur gengu ótrúlega vel. Ég ákvað að taka slaginn með Selfossi. Ég er mjög þakklát fyrir heilsuna, að ég geti komið til baka."

Hólmfríður, sem verður 38 ára í næsta mánuði, gat ekki sleppt takinu af fótboltanum strax.

„Ég hef svo ótrúlega gaman að þessu. Það er verið að vinna spennandi starf á Selfossi; nýtt þjálfarateymi og mikið af ungum og efnilegum stelpum að stíga upp. Það gefur mér ótrúlega mikið að geta gefið af mér og að vera með."

„Ég held að það geri mig líka að betri mömmu að geta farið á æfingu og geta fengið smá útrás, en ég gæti þetta aldrei án þess að vera með frábært stuðningsnet á bak við mig."

Hólmfríður, sem á að baki 113 A-landsleiki, hefur verið ein af fremstu fótboltakonum landsins síðustu áratugi. Það er frábært að sjá hana aftur út á velli og kemur hún klárlega til með að hjálpa Selfossi í barátatunni sem er framundan. Næsti leikur liðsins er gegn Þrótti á þriðjudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner