mið 16. nóvember 2022 09:15
Magnús Már Einarsson
4 dagar í HM - HM í Þýskalandi 2006
Zidane skallaði Materazzi
Ítalía fagnaði sigri á HM 2006.
Ítalía fagnaði sigri á HM 2006.
Mynd: Getty Images
Poll gaf Simunic þrívegis gula spjaldið áður en það rauða fór á loft.
Poll gaf Simunic þrívegis gula spjaldið áður en það rauða fór á loft.
Mynd: Getty Images
Cambiasso batt endahnútinn á frábæra sókn Argentínu.
Cambiasso batt endahnútinn á frábæra sókn Argentínu.
Mynd: Getty Images
Valentin Ivanov stóð í stórræðum í leik Portúgals og Hollands.
Valentin Ivanov stóð í stórræðum í leik Portúgals og Hollands.
Mynd: Getty Images
Wayne Rooney var rekinn út af eftir að hafa traðkað á Carvalho.
Wayne Rooney var rekinn út af eftir að hafa traðkað á Carvalho.
Mynd: Getty Images
Zidane skallaði Materazzi.....
Zidane skallaði Materazzi.....
Mynd: Getty Images
....og missti af heimsmeistaratitlinum.  Hann var þrátt fyrir það maður mótsins.
....og missti af heimsmeistaratitlinum. Hann var þrátt fyrir það maður mótsins.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður á sunnudag milli Katar og Ekvador.



HM í Þýskalandi 2006
HM árið 2006 fór fram í Þýskalandi en leikið var á níu glæsilegum leikvöngum þar í landi. Suður-Afríka, England og Marokkó sóttu einnig um að fá að halda mótið en á endanum stóð valið á milli Þýskalands og Suður-Afríku. 198 lið tóku þátt í undankeppninni og 31 lið komst áfram á mótið þar sem gestgjafarnir biðu einnig. Angóla, Fílabeinsströndin, Gana, Togo, Trinidad og Tobago og Serbía og Svartfjalland tóku öll þátt í mótinu í fyrsta skipti. Tékkland og Úkraína tóku einnig í fyrsta skipti þátt undir eigin merkjum eftir að hafa áður verið undir Tékkóslóvakíu og Sóvétríkjunum.

Poll gaf þrjú gul og síðan rautt
Enski dómarinn Graham Poll komst í fréttirnar þegar hann sýndi Josip Simunic varnarmanni Króatíu gula spjaldið tvívegis án þess að lyfta því rauða. Simunic fékk þó rauða spjaldið í leikslok þegar Poll spjaldaði hann í þriðja skipti í leiknum. Poll sagðist eftir leik hafa skrifað númerið á treyju Simunic í dálkinn fyrir ástralska liðið á spjaldi sínu og því hefði hann ekki áttað sig á að varnarmaðurinn var kominn með tvö gul spjöld.

Simunic var í liði Króatíu sem sigraði Ísland árið 2013 í umspili um sæti á HM en eftir leikinn fékk hann stuðningsmenn króatíska landsliðsins til að syngja með sér gömul slagorð króatíska fasistaflokksins Ustase. Í kjölfarið dæmdi FIFA hann í tíu leikja bann sem þýðir að hann var ekki með Króatíu á HM 2014.

Eitt besta liðsmark sögunnar
Argentína skoraði frábært mark í 6-0 sigri á Serbíu og Svartfjallalandi í riðlakeppninni. Leikmenn liðsins létu þá boltann ganga frábærlega og eftir 26 sendingar skoraði Esteban Cambiasso. Frábært samspil hjá Argentínumönnum og eitt besta liðsmark í sögu HM.

Smelltu hér til að sjá markið

16 gul og fjögur rauð
Valentin Ivanov var með spjöldin á lofti í leik Portúgals og Hollands í 16-liða úrslitunum. Ivanov gaf 16 gul spjöld í leiknum og rak Khalid Boulahrouz, Giovanni van Bronckhorst, Costinha og Deco alla af velli. Portúgalar fóru með 1-0 sigur af hólmi með marki frá Maniche en leiksins verður alltaf minnst fyrir spjöldin. Leikurinn fór fram í Nurnberg og hefur hlotið nafnið „bardaginn í Nurnberg" eftir þennan ótrúlega fjölda spjalda.

Sepp Blatter, forseti FIFA, gagnrýndi Ivanov dómara eftir leik og sagði að hann hefði átt að gefa sjálfum sér gula spjaldið fyrir frammistöðuna. Blatter baðst síðar afsökunar á þeim ummælum en Ivanov á hins vegar met yfir flest spjöld í einum sama leiknum á HM frá upphafi.

Spjaldagleði hans átti einnig þátt í að aldrei hafa eins mörg spjöld farið á loft eins og á HM 2006 en 28 leikmenn fengu rauða spjaldið og þá fór gula spjaldið 345 sinnum á loft.

Rooney rekinn út af í 8-liða úrslitunum
Wayne Rooney var rekinn af velli eftir rúman klukkutíma í leik Englands og Portúgal í 8-liða úrslitunum. Rooney traðkaði á Ricardo Carvalho og Horazio Elizondo dómari leiksins rak hann af velli.

Mikið var gert úr þætti Cristiano Ronaldo í málinu en hann kom hlaupandi að dómaranum og heimtaði rauða spjaldið á Rooney sem var þá liðsfélagi hans hjá Manchester United. Ronaldo olli ennþá meiri reiði í Englandi með því að blikka Rooney eftir atvikið. Hvorki England né Portúgal náði að skora í leiknum en í vítaspyrnukeppni höfðu Portúgalar betur 3-1 eftir að Frank Lampard, Steven Gerrard og Jamie Carragher misnotuðu allir sínar spyrnur.

Smelltu hér til að sjá rauða spjaldið

Úrslitaleikur: Ítalía 1 - 1 Frakkland (5-3 eftir vító)
Ítalía sigraði gestgjafana 2-0 í framlengdum undanúrslitaleik þar sem vinstri bakvörðurinn Fabio Grosso og Alessandro Del Piero skoruðu mörkin á 118 og 119. mínútu. Frakkar unnu Portúgala aftur á móti 1-0 þar sem Zinedine Zidane skoraði eina markið úr vítaspyrnu.

Zidane lék sinn síðasta leik á ferlinum í úrslitaleiknum og hann átti eftir að koma mikið sögu í leiknum. Zidane byrjaði á að koma Frökkum yfir á sjöundu mínútu þegar hann vippaði boltanum svellkaldur í slána og inn af vítapunktinum.

Marco Materazzi jafnaði fyrir Ítalíu á 19. mínútu eftir hornspyrnu frá Andrea Pirlo. Framlengja þurfti leikinn og þar komust markaskorararnir Zidane og Materazzi aftur í sviðsljósið.

Eftir orðsaskipti þeirra á milli þar sem Materazzi lét ófögur orð falla um móður Zidane þá svaraði Frakkinn með því að skalla Materazzi í bringuna. Zidane var í kjölfarið rekinn af velli og ferli hans lauk því með rauðu spjaldi. Eitt frægasta HM atvik sögunnar.

Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem Ítalir skoruðu úr öllum fimm spyrnum á meðan David Trezeguet skaut í slána úr annarri spyrnu Frakka og lokatölur í vítaspyrnukeppninni 5-3 fyrir Ítölum sem unnu þarna sitt fyrsta stórmót í 24 ár.

Smelltu hér til að sjá Zidane skalla Materazzi

Leikmaðurinn: Zinedine Zidane
Þrátt fyrir að hafa fengið að líta rauða spjaldið í úrslitaleiknum þá var Zidane valinn maður mótsins. Zidane hafði verið fremstur í flokki hjá Frökkum en hann átti stórleik í 1-0 sigri á Brasilíu í 8-liða úrslitum þar sem hann lagði upp sigurmarkið. Í undanúrslitunum skoraði Zidane síðan sigurmark Frakka gegn Portúgal áður en hann skoraði einnig úr vítaspyrnunni í úrslitaleiknum sjálfum.

Markahrókurinn: Miroslav Klose
Fimm mörk dugðu Klose til að verða markahæstur en framherjarnir voru ekki á skotskónum í Þýskalandi því enginn annar leikmaður náði að skora yfir þrjú mörk. Enginn leikmaður í heimsmeistaraliði Ítalíu skoraði meira en tvö mörk en alls komust tíu leikmenn liðsins á blað á mótinu sem er jöfnun á meti.

Leikvangurinn: Ólympíuleikvangurinn í Berlín
69 þúsund manns mættu á úrslitaleikinn á Ólympíuleikvanginum í Berlín. Leikvangurinn var tekinn í notkun árið 1936 og notaður í þremur leikjum á HM 1974. Hann gekk í gegnum viðamiklar breytingar fyrir HM 2006 og margir stórir viðburðir hafa þar farið fram.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978
HM á Spáni 1982
HM í Mexíkó 1986
HM á Ítalíu 1990
HM í Bandaríkjunum 1994
HM í Frakklandi 1998
HM í Suður-Kóreu og Japan 2002

Markaregn frá mótinu

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner