Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 22. ágúst 2022 15:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Strákarnir báðu systur Ísaks afsökunar - „Eitthvað sem enginn samþykkir"
Kórinn
Kórinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á föstudag áttu sér stað leiðinlegir atburðir í Kórnum þegar hópur stuðningsmanna HK sungu ljóta söngva um Damir Muminovic leikmann Breiðabliks og stuðningsmenn HK spörkuðu í yngri systur Ísaks Snæs Þorvalddssonar. HK var að mæta Breiðabliki í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

Í kjölfarið sendi HK frá sér yfirlýsingu þar sem félagið bað hlutaðeigandi innilega afsökunar.

Fótbolti.net ræddi við formann knattspyrnudeildar HK í dag.

„Strákunum sem veittust að systrum Ísaks leið illa yfir því sem þeir gerðu og leituðu til foreldra sinna. Þeir fóru með þá á laugardag og hittu systurnar og Ísak. Þeir báðu þær afsökunar og eru miður sín yfir þessu. Þeir hafa einnig fengið tiltal heima fyrir," sagði Frosti Reyr Rúnarsson.

Uppfært 15:20: Þegar fréttin var fyrst birt var sagt frá því að árásaraðilarnir hefðu ekki fundist. Eins og fram kemur hér að ofan þá báðu þeir stelpurnar afsökunar daginn eftir atburðinn.

Ræða við sína iðkendur
Mun HK ræða þessa atburði við iðkendur í yngri flokkum félagsins?

„Já, það er þegar búið að gera það að hluta og við höldum því áfram næstu daga. Þetta er auðvitað algjörlega óboðlegt og við tökum fast á því. Bæði núna til skemmri tíma og við erum líka að skoða hvort við getum gert eitthvað til lengri tíma - hvort við getum gert eitthvað til að gera upplifun af leikjum skemmtilegri og glaðari heldur en að lenda í svona atvikum. Þetta er eitthvað sem enginn samþykkir, þetta er ekki í okkar anda."

„Þetta var stöðvað strax og rætt við hlutaðeigandi, þá leikmenn Breiðabliks sem þetta snerti, strax að kvöldi og beðist afsökunar. Við viljum gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að svona geti endurtekið sig."


Skemmtilegur leikur, metfjöldi en atburðirnir skyggja á allt
Hvernig var upplifunin að vera í Kórnum á föstudagskvöld? Var eitthvað skrítið andrúmsloft?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Ég held að þetta hafi verið með skemmtilegri leikjum sem hafa farið fram í Kórnum í langan tíma. Það er gaman að spila við stórlið úr efstu deild - sem eru mögulega að fara hampa tveimur bikurunum - og hvað þá að þetta sé bæjarslagurinn í Kópavogi. Það var metfjöldi á þessu ári."

Eins og Óskar (Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks) benti á, hann líkti þessu við stemninguna á handbolta og körfuboltaleikjum í úrslitakeppnum. Hann talaði um 4000 manns með 700 trommum. Í þessu áhorfendahallæri sem er kannski víða í íslenskum fótbolta þá fögnum við því að Kórinn var nánast fullur og mikill áhugi fyrir þessum leik."

„Það eru margir sem hafa kvartað að þurfa spila innanhúss en ég held að það sé áhugavert fyrir þá sömu að lesa tilvitnuna í Óskar eftir leikinn. Það kemur varla fjölmiðlamaður, þjálfari eða iðkandi úr öðru félagi en HK sem finnst þetta vera í lagi. Svo kemur Óskar með þessi ummæli."

„Þessir atburðir skyggja svo á allt sem gert var. Við viljum vera betri, standa okkur betur og bæta okkur,"
sagði Frosti.

Það hefur heyrt að einhverjum aðilum hafi verið vísað úr Kórnum eftir ábendingar um ljóta söngva í stúkunni. Frosti segir að strax hafi verið gengið á aðila og komið í veg fyrir að söngvarnir myndu halda áfram. En hann gat ekki staðfest að þeim hafi verið vikið út.
Athugasemdir
banner
banner
banner