
Fylkir hefur styrkt sig með tveimur öflugum leikmönnum fyrir kvennaliðið, en þær Hallgerður Kristinsdóttir og Margrét Ingþórsdóttir munu leika með liðinu út yfirstandandi keppnistímabil.
Hallgerður, 23 ára gömul hafsent, kemur á láni frá Gróttu þar sem hún hefur leikið frá árinu 2022. Hún er uppalin hjá Val en hóf meistaraflokksferilinn hjá Tindastóli áður en hún gekk til liðs við Gróttu. Hallgerður hefur leikið alls 91 KSÍ leiki og skorað í þeim þrjú mörk.
Margrét Ingþórsdóttir er 36 ára gömul og er reynslumikill markvörður sem mun taka við keflinu af Bergljótu Júlíönu Kristinsdóttur, sem heldur til Bandaríkjanna í háskólaboltann. Margrét mun standa á milli stanganna út tímabilið hjá Fylki. Hún hefur leikið 209 leiki á vegum KSÍ á ferlinum, þar af þrjá leiki fyrir Fylki árið 2013.
„Um er að ræða gríðarlega mikilvægan liðsstyrk fyrir síðari hluta tímabilsins og hlökkum við til að sjá þær í appelsínugula búningnum," segir í tilkynningu Fylkis sem er í harðri fallbaráttu í Lengjudeildinni.
Athugasemdir