
„Við vorum staðráðnir í því að mæta í Kórinn og jafna þá í baráttu og spilamennsku og það gerðum við klárlega.“ Sagði auðsjáanlega nokkuð svekktur þjálfari Leiknis Ágúst Gylfason eftir 1-0 tap hans manna gegn HK í Kórnum í kvöld þar sem Leiknismenn voru síst lakara liðið á vellinum heilt yfir.
Lestu um leikinn: HK 1 - 0 Leiknir R.
„Við vorum það lið sem reyndi að spila boltanum á milli manna en þeir reyndu meira að taka boltann direct í gegn. Þeir settu þetta eina mark sem skildi liðin að en ég er mjög ánægður með frammistöðu leikmanna í liðinu. Við mættum og lögðum okkur þvílíkt í verkefnið. Það er eitthvað sem við getum tekið með í framhaldið.“
Leikur Leiknis var að mörgu leyti með ágætum í dag en eitthvað vantaði upp á þegar komið var á síðasta þriðjung. Ágúst vildi þó meina að það væri ekki allt í þeirra höndum þar.
„Lið HK gerði bara mjög vel. Við áttum alveg óteljandi mikið af skotum sem að þeir náðu að blokkera. Hrós til þeirra og markmaðurinn þeirra stóð sig frábærlega í dag. Við þurfum bara að vera hnitmiðaðri í teig andstæðingana og það hefur verið að há okkur dálítið í sumar.“
Úrslitin í umferðinni eru þó á þá leið að fátt ef nokkuð breytist í þeirri baráttu sem Leiknir er í en liðin í kringum þá unnu ekki sína leiki.
„Það er stutt upp. Ef frammistaðan og hugrekki okkar og barátta heldur áfram þá förum við að vinna leiki. Það er samt ekki hægt að fela sig endalaust á bakvið frammistöðu. Við þurfum að fara að vinna og við þurfum að skora mörk og halda hreinu.“
Sagði Ágúst en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir