Rafael van der Vaart, fyrrum leikmaður Ajax og hollenska landsliðsins, er ekki hrifinn af því hvernig Ajax hefur unnið á félagaskiptamarkaðnum á þessu tímabili.
Ajax er að eiga sögulega slakt tímabil þó það hafi vissulega skánað með hverjum mánuðinum.
Byrjunin var skelfileg og sat liðið um tíma í neðsta sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.
Það jákvæða er að félagið hefur notast við marga unga leikmenn og þar á meðal Kristian Nökkva Hlynsson, sem hefur verið einn af ljósu punktum liðsins.
HIns vegar furðar Van der Vaart sig á kaupum Ajax á markaðnum og gagnrýnir þar félagaskipti Jordan Henderson sérstaklega, sem var fenginn á frjálsri sölu frá Al Ettifaq í Sádi-Arabíu.
„Þeir hafa fengið leikmenn inn sem hafa engin gæði og þá er eðlilegt að þú sitjir hjá á þessu tímabili. Þeir fengu Jordan Henderson, sem gerir engan glaðan. Þeir þurfa alla heppni í heiminum til að komast áfram þegar liðið mætir Bodö/Glimt á morgun. Það er best að koma sér út bara,“ sagði Van der Vaart í þættinum Rondo á Ziggosport, en hann er ekki beint þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum.
Ajax situr nú í 5. sæti deildarinnar og þarf kraftaverk til þess að komast í Meistaradeildina á næstu leiktíð.
Athugasemdir