Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 09. júní 2019 14:25
Ívan Guðjón Baldursson
Áhugi Barcelona á Griezmann fer dvínandi
Mynd: Getty Images
Antoine Griezmann er ekki efstur á forgangslista Barcelona á leikmannamarkaðinum í sumar þrátt fyrir að hafa sagst ætla að yfirgefa Atletico Madrid.

Barcelona hefur verið á eftir Griezmann í nokkur ár og tók hann loks ákvörðun um að yfirgefa Atletico í maí.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum hefur áhugi Börsunga dvínað og gæti farið svo að félagið leggi ekki fram tilboð í framherjann.

Riftunarákvæði Griezmann nemur 175 milljónum punda og gildir þar til í lok mánaðar. Þá mun ákvæðið lækka niður í 105 milljónir.

Umtalið í kringum félagaskipti Griezmann var orðið það mikið að hann gaf út heimildarmynd í fyrra. Sú ákvörðun hefur verið gagnrýnd af ýmsum innan knattspyrnuheimsins og gæti haft áhrif á hvernig Barcelona lítur á leikmanninn.

Stuðningsmenn Atletico bauluðu hressilega á Griezmann í síðasta leik hans fyrir félagið, sem var á útivelli gegn Levante. Hann hafði tilkynnt ákvörðunina um framtíð sína nokkrum dögum fyrr.

„Griezmann hefur verið hjá okkur í fimm ár og staðið sig frábærlega. Við eigum í góðum samskiptum. Ég vona að honum líði vel hvert sem hann fer næst," sagði Enrique Cerezo, forseti Atletico.

„Ég veit ekki hvert hann er að fara, hann sagði það ekki. Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvert hann er að fara, ég held að enginn viti það.

„Enginn frá Barca hefur sett sig í samband við mig."

Athugasemdir
banner