Carrick gæti stýrt æfingu Man Utd á miðvikudag - Everton vill White frá Arsenal - Dortmund fylgist með Bobb
banner
   mán 12. janúar 2026 11:47
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Margra mánaða bið eftir óvissunni í leikhúsi draumanna
Elvar Geir Magnússon
Old Trafford, heimavöllur Manchester United.
Old Trafford, heimavöllur Manchester United.
Mynd: EPA
Tekur Glasner við Manchester United næsta sumar?
Tekur Glasner við Manchester United næsta sumar?
Mynd: EPA
Er Manchester United í alvöru að fara að bíða til sumarsins eftir því að Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, sé klár í að taka við liðinu? Með fullri virðingu. Ástandið hjá einu vinsælasta íþróttafélagi heims er með svartasta móti.

Enn og aftur er félagið komið á núllpunkt. Amorim og hans vegferð er komin út fyrir hafsauga og nú er allt gert með frjálsri aðferð í einhverju millibilsástandi.

Eftir tvo leiki sem bráðabirgðastjóri er Darren Fletcher nú að hverfa aftur til starfa við þjálfun U18 liðsins og Michael Carrick er líklegastur til að taka við sem næsti bráðabirgðastjóri, út tímabilið.

Skrípaleikur er orð sem kemur upp í hugann þegar maður hugsar um það hvernig þessu er stýrt bak við tjöldin. Það er bara verið að gera eitthvað og væri alveg eins hægt að breyta þessu í eitthvað raunveruleikasjónvarp og leyfa nýrri United goðsögn að stýra í hverjum leik út tímabilið. Fá Beckham í leikinn gegn City á laugardaginn?

Veðbankar telja líklegast að Glasner taki svo við sem stjóri United í sumar. Hann endar væntanlega svo eins og hver annar stjóri sem hefur tekið við United. Teiknaður upp sem trúður áður en hann verður rekinn.

Glasner aðhyllist þriggja miðvarða kerfi. Tilhugsun sem lætur marga stuðningsmenn United fá grænar bólur eftir tíma Amorim. Leikaðferð Austurríkismannsins er þó að mörgu leyti öðruvísi og alls ekki eins áhættusækið.

Glasner á skilið að fá mikla virðingu fyrir það sem hann hefur gert hjá Palace. Bikarmeistaratitill í hús og Evrópuþátttaka. Gerði flotta hluti í Þýskalandi. En að stýra Manchester United er svo allt annað og miklu miklu stærra dæmi. Svið í leikhúsi draumanna sem hann hefur ekki stigið á.

Er Manchester United virkilega tilbúið að henda þessu tímabili og næstu mánuðum í ruslið til að byrja á núllpunkti undir stjórn Glasner, með allri þeirri óvissu sem því fylgir? Þá undirstrikar það svo sannarlega á hversu slæmum stað félagið er.
Athugasemdir
banner
banner
banner