
Leiknir tapaði gegn Þór á útivelli í Lengjudeildinni í dag. Fótbolti.net ræddi við Ágúst Gylfason, þjálfara Leiknis, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 2 - 0 Leiknir R.
„Við gefum þeim tveggja marka forskot til að byrja með, slakur varnarleikur hjá okkur. Fótboltalega séð vorum við að gera vel, vorum að spila boltanum vel og sköpuðum mikið af færum. Sérstaklega mikið af skotum sem Þórsararnir voru að henda sér fyrir," sagði Gústi.
„Þeir voru góðir í varnrarleiknum sínum. Við hefðum viljað hafa kjarkinn þeirra okkar megin en því miður voru þeir meira tilbúnir í varnarleikinn en við."
Það var einfalt svar þegar Gústi var spurður út í hvað hafi verið jákvætt í leiknum.
„Sóknarleikurinn en næsta spurning er kannski hvað við getum tekið neikvætt út úr honum. Það er varnarleikurinn."
Leiknir hefur aðeins nælt í tvö stig í síðustu fimm leikjum og er á botni Lengjudeildarinnar. Hvað þurfið þið að gerast til að koma ykkur af botninum?
„Verjast betur og gera þetta betur sem lið. Eins og Þorgrímur Þráins sagði, það er það sem vinnur leiki, það er varnarleikur."
Athugasemdir