
„Maður er alltaf fúll að tapa í vítakeppni," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, eftir tap gegn Vestra í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í dag.
„Á þessum 90 mínútum sem við spiluðum áður en framlengingin byrjaði þá fannst mér við vera með yfirhöndina meira og minna. Við eigum að klára þetta á 90 mínútum, svo er framlengingin eins og hún er. Við eigum færi þar og þeir líka, þetta hefði getað farið á báða bóga."
„Hörku spenna og týpískur bikarleikur. Þegar þú ert kominn út í vítakeppni þá er erfitt. Maður vill ekki skamma neinn fyrir það að þora að standa á punktinum og vilja taka víti. Það er alltaf einhver sem þarf að klikka til þess að ráða einhver úrslit og því miður lentum við í því."
Fram er í harðri baráttu um að komast í efri hlutann í Bestu deildinni. Liðið mætir Aftureldingu á fimmtudaginn.
„Við förum kokhraustir héðan. Við ætlum ekki að fara grenja yfir því að hafa tapað, við erum mjög leiðir en það er svo mikið um að spila í deildinni. Við ætlum að halda áfram á okkar vegferð. Strákarnir fá tveggja daga frí og sleikja sárin og svo mætum við kokhraustir í næsta leik. Við leyfum mönnum að safna smá kröftum í líkamann eftir þessar erfiðu mínútur."
Athugasemdir