Bosse Andersson, yfirmaður fótboltamála hjá Djurgården í Svíþjóð, hefur tjáð sig um fréttir þess efnis að félagið sé að kaupa Loga Tómasson.
Hrafnkell Freyr Ágústsson í Dr. Football segir frá því á Twitter í gær að samkomulag væri í höfn á milli Víkings og Djurgården um kaup á Loga.
Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, sagði hins vegar í samtali við Fótbolta.net að það væri ekki rétt.
„Það er ekki rétt," sagði Kári og sagði engar viðræður í gangi við Djurgården. „En hvort þeir hafi áhuga get ég ekki sagt, þú þyrftir að heyra í mönnum hjá þeim með það."
Núna hefur Andersson tjáð sig um málið við Fotbollskanalen og hann segir: „Þetta eru skrítnar upplýsingar."
„Það er eðlilegt að það séu sögusagnir þegar styttist í félagaskiptagluggann og þetta er staða á vellinum sem við þurfum hugsanlega að styrkja," sagði Andersson jafnframt.
Logi er 22 ára vinstri sem er búinn að spila frábærlega með Víkingum í sumar og það er eðlilegt að það sé áhugi á honum erlendis. En það er ekkert klárt eins og er. Fjölmiðlar í Svíþjóð segja að Gautaborg sé einnig með augastað á leikmanninum hæfileikaríka.
Athugasemdir