Ramos orðaður við Man Utd - West Ham fylgist með Brassa - Sunderland vill Guendouzi
banner
   fös 12. desember 2025 10:10
Kári Snorrason
Albert skýtur föstum skotum á Arnar Viðars: Hann gróf sína eigin gröf, hvíl í friði
Albert og Arnar á æfingu.
Albert og Arnar á æfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara árið 2023.
Arnar var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara árið 2023.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég hef verið með marga frábæra þjálfara í gegnum ferilinn, sem eru miklu færari en Arnar Þór Viðarsson. Þeir hafa aldrei sett út á þetta.“
„Ég hef verið með marga frábæra þjálfara í gegnum ferilinn, sem eru miklu færari en Arnar Þór Viðarsson. Þeir hafa aldrei sett út á þetta.“
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Albert segir hafa hugsað um að hætta í landsliðinu.
Albert segir hafa hugsað um að hætta í landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson skaut föstum skotum á fyrrum landsliðsþjálfarann Arnar Þór Viðarsson í hlaðvarpinu Chess After Dark sem kom út í gærdag.

Albert var ekki í náðinni hjá Arnari í landsliðinu og gagnrýndi þjálfarinn hugarfar Alberts og valdi ekki Albert út frá þeim forsendum.

Albert var spurður ítarlega út í tímana undir Arnari Þór Viðarssyni í hlaðvarpinu.

Tekinn fyrir á fundi
„Ég man eftir fyrsta glugganum hans Arnars. Þá töpuðum við stórt gegn Þjóðverjum úti. Ég get alveg sagt að taktíkin var mjög skrýtin, en það er auðvitað enginn heimsendir að tapa gegn Þjóðverjum. En síðan kemur næsti leikur og þar töpum við gegn Armeníu.

Svo er fundur eftir Armeníu-leikinn. Þar eru teknar svona tíu klippur og ætli átta af þeim séu ekki um mig, bullandi neikvæðar. Ég er bara tekinn og étinn þarna. Þá fann ég strax að það væri eitthvað ekki í lagi þarna. Þrátt fyrir það spilaði ég næstu tíu leiki undir Arnari, þar til að allt fór til suðurs.“


Ósáttur við tillögu Alberts
Arnar var ósáttur með hugarfar Alberts eftir leik en hann gefur lítið fyrir útskýringar þjálfarans.

„Mér finnst ég alltaf verið með gott hugarfar, það nær enginn svona langt á atvinnumannaferli án þess að vera með gott hugarfar. Þetta tilfelli sem þú vitnar í höfðum við ekki getað neitt, ég þar á meðal. Ég átti spjall með Arnari og sagði að mig langaði að hjálpa liðinu meira og sagði að ég held ég myndi gera það meira með að spila miðsvæðis, af því að ég spilaði flesta leiki hangandi úti á kanti og hann vildi að ég myndi sleikja hliðarlínuna.

Hann var ekkert sérstaklega sáttur með þessa tillögu frá mér. Hann segir við mér að hann sé þjálfarinn og ég ætti að einbeita mér að einhverju öðru en því. Ég er þarna á bekknum úti gegn Ísrael og á bekknum í næsta leik og kom inn á alveg undir lok leiks, þá var ég helvíti pirraður. Síðan kemur næsti gluggi og ég er ekki valinn.“


„Hef verið með miklu færari þjálfara á ferlinum“
Albert var þá að spila vel með Genoa en var ekki valinn í næstu landsliðshópa vegna lélegs hugarfars að mati þjálfarans.

„Það er eitt að velja ekki leikmann, hann er þjálfarinn og hann ræður. En hann þarf ekki að fara í viðtal og kommenta á hugarfarið mitt. Sérstaklega ekki þegar hann er að ljúga að því. Ég hef verið með marga frábæra þjálfara í gegnum ferilinn, sem eru miklu færari en Arnar Þór Viðarsson.

Þá er ég að tala um Arne Slot, Pascal Jansen, Marco Van Bommel, Phillip Cocu og Ruud van Nistelrooy, allir eru þeir með einhverja uppbyggilega gagnrýni. Síðan kemur Arnar Þór Viðarsson og talar um hugarfarið mitt, það hefur enginn annar þjálfari talað um það. Mér fannst það skrýtið, Arnar fer bara beint í manninn.“


Segir Arnar hafa logið að fjölmiðlum
Arnar sagði í næstu gluggum Albert ekki tilbúinn að koma í landsliðið á forsendum liðsins.

„Síðan kemur næsti gluggi og það er sama saga. Tíu mínútna ræða á blaðamannafundi og hann velur mig ekki. Síðan kemur marsglugginn 2023, ég eignast dóttur mína um miðjan febrúar. Arnar hringir í mig, örugglega tilneyddur því ég var að spila fáránlega vel, og tilkynnir mér það að hann ætli að velja mig í hópinn.

Ég segi við hann að dóttir mín sé nýfædd og ég ætla að nýta fríið sem ég fæ til að vera með henni. Hann segir; Já, frábært. Í rauninni líður mér eins og hann sé feginn að þurfa ekki að taka mig inn í hópinn. Það er allt gott og blessað og ég fer í fríið. Hann fer svo í viðtal og beinlínis lýgur: Segir að ég vilji ekki koma inn á forsendum liðsins.“


Gróf sína eigin gröf
Guðmundur Benediktsson, faðir Alberts Guðmundssonar, senti frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði m.a. að hann sjálfur hefði hætt í landsliðinu ef komið væri svona fram við sig. Albert var spurður hvort að hann hefði íhugað að hætta í landsliðinu.

„Ég án gríns hugsaði það. Það var ekki bara út af Arnari en mér fannst ég ekki fá 'back up' frá stjórninni eða formönnunum, þeir leyfðu honum að vaða yfir mig viðtal eftir viðtal. Auðvitað langaði mig að kommenta á þetta, en ég man að pabbi sagði við mig; Vertu slakur, þú verður lengur í þessu landsliði en hann. Hann er bara að grafa sína eigin gröf. Sem var náttúrulega bara raunin, hann gróf sína eigin gröf og 'rest in peace'.“



Athugasemdir
banner
banner