Man Utd hefur engan áhuga á Ramos - Tottenham reynir að selja Bissouma - Bayern ætlar að ræða við Guehi
   fös 12. desember 2025 17:54
Brynjar Ingi Erluson
Salah verður með gegn Brighton
Mohamed Salah
Mohamed Salah
Mynd: EPA
Mohamed Salah verður í leikmannahópnum hjá Liverpool er liðið tekur á móti Brighton í ensku úrvalsdeildinni á morgun en enskir miðlar greina frá þessu í kvöld.

Salah sat á bekknum þrjá leiki í röð áður en hann varpaði sprengju í viðtali við skandinavíska fjölmiðla eftir 3-3 jafnteflið við Leeds.

Egyptinn sagðist hafa fengið ósanngjarna meðferð frá félaginu og að hann væri búinn að gera nóg til þess að eigna sér stöðu í liðinu. Að hans sögn var honum kastað fyrir rútuna en viðbrögð spekinga hafa verið blendnar og ekki allir sammála um framferði hans.

Salah var ekki með Liverpool gegn Inter og var algerlega óvíst hvort hann yrði með gegn Brighton um helgina sem verður hans síðasti leikur áður en hann heldur á Afríkumótið.

Arne Slot, stjóri Liverpool, greindi frá því á blaðamannafundi að hann ætlaði sér að ræða við Salah í dag og samkvæmt Paul Joyce gekk sá fundur ágætlega.

Salah, sem er 33 ára gamall, verður í leikmannahópnum gegn Brighton, en Joyce tók hins vegar fram að ekki sé búið að kryfja málið til mergjar en að það verði unnið að því að leysa málin meðan Salah er á Afríkumótinu.

Vilji beggja aðila er að halda samstarfinu áfram og munum við að sjálfsögðu fylgjast með framvindu mála.
Athugasemdir