Mikel Arteta þjálfari Arsenal svaraði spurningum eftir dramatískan sigur á heimavelli gegn botnliði Wolves í kvöld.
Heimamenn í liði Arsenal voru ekki sannfærandi gegn vel skipulögðum Úlfum en þeim tókst að sigra þökk sé tveimur sjálfsmörkum. Dramatískt sigurmark kom á 94. mínútu.
„Þetta var alvöru rússíbani. Við sköpuðum mikið af góðum stöðum í fyrri hálfleik en náðum ekki að búa til dauðafæri. Eftir að við skoruðum markið þá bökkuðum við aðeins of lágt niður í smá tíma og þeir refsuðu okkur. Við áttum að verjast mikið betur í aðdraganda marksins," sagði Arteta.
„Sem betur fer náðum við að finna leið til að sigra leikinn þökk sé einstaklingsframtaki hjá Bukayo (Saka) sem náði að finna Gabi (Jesus) með góðri fyrirgjöf. Ég er mjög ánægður með viðbrögð leikmanna eftir jöfnunarmarkið, þeir skoruðu með fyrsta skotinu sem þeir tóku í okkar vítateig í öllum leiknum. Við vorum alltof passívir og ekki nógu góðir varnarlega í þessu marki. Sem betur fer fundum við leið til að sigra en við verðum að gera betur í framtíðinni."
Arsenal er með 36 stig eftir 16 umferðir, fimm stigum meira en Manchester City sem á leik til góða.
„Við erum ánægðir með að fá eina viku til að undirbúa okkur fyrir næsta leik og allt brjálæðið í kringum jólatímann."
Arteta hrósaði Viktor Gyökeres fyrir hans frammistöðu í leiknum og ræddi um meiðsli Ben White.
„Hann (Gyökeres) kom sér í mjög góðar stöður en boltinn rataði ekki til hans á réttum tímapunktum. Hann spilaði vel en það vantaði upp á þjónustuna. Ben (White) meiddist aftan í læri og það lítur ekki vel út."
Athugasemdir



