Það hefur í raun verið magnað að fylgjast með Aston Villa að undanförnu eftir gífurlega erfiða byrjun á tímabilinu.
Villa fór mjög illa af stað og um tíma leit út fyrir að dagar Unai Emery hjá félaginu væru taldir.
Villa fór mjög illa af stað og um tíma leit út fyrir að dagar Unai Emery hjá félaginu væru taldir.
Spænski stjórinn hefur hins vegar náð að snúa gengi Villa við og eftir sigur gegn Arsenal um síðustu helgi eru bara þrjú stig í toppinn.
Jón Haukur Baldvinsson, stuðningsmaður Aston Villa, var gestur í síðasta þætti af Enski boltinn hlaðvarpinu.
„Mér finnst þetta minna smá á Leicester tímabilið," sagði Jón Haukur og vísaði þar í tímabilið 2016 þegar Leicester kom öllum á óvart og varð Englandsmeistari.
„Það eru öll liðin að spila einhvern veginn la la. Það eru mörg lið sem eru ekki að standa sig eins og þau eiga að vera að gera. Þannig var það líka svolítið tímabilið sem Leicester varð meistari," sagði Jón en hann telur að Villa geti verið í titilbaráttu ef liðið heldur sama sjálfstrausti og sleppur við meiðsli.
Ef Aston Villa verður meistari, þá verður það ekki eins óvænt og þegar Leicester varð meistari. Leicester var spáð í fallbaráttu en enduðu sem meistari. Það verður líklega aldrei toppað en það yrði samt sem áður gífurlega óvænt ef Villa endar sem meistari.
Jón Haukur er mikill stuðningsmaður Unai Emery sem hefur verið stjóri Villa frá því árið 2022 en hægt er að hlusta á alla umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir




