Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins víða um Evrópu, þar sem Cecilía Rán Rúnarsdóttir varði mark Inter í nágrannaslagnum gegn AC Milan.
Cecilía fékk mark á sig snemma leiks en gerði svo vel að verja aðrar marktilraunir. Inter vann að lokum 5-1 eftir að hin maltneska Haley Bugeja kom inn af bekknum í hálfleik og skoraði þrennu.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sat á bekknum hjá Inter, sem er í fjórða sæti Serie A deildarinnar með 15 stig eftir 9 umferðir, tveimur stigum fyrir ofan Milan.
Hildur Antonsdóttir lék þá 86 minutur í óvæntu tapi Madrid á heimavelli gegn Athletic Bilbao í spænska boltanum. Madrid er sjö stigum frá Meistaradeildarsæti.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir var að lokum í byrjunarliðinu hjá Anderlecht sem tapaði toppslagnum gegn OH Leuven í Belgíu. Anderlecht er tveimur stigum á eftir Leuven í titilbaráttunni.
Amanda Jacobsen Andradóttir var ekki í byrjunarliðinu hjá Twente sem lagði Den Haag að velli í hollenska bikarnum. Twente er komið í 8-liða úrslit.
Milan 1 - 5 Inter
Madrid 0 - 2 Athletic Bilbao
Anderlecht 1 - 3 Leuven
Den Haag 0 - 2 Twente
Athugasemdir

