Man Utd hefur áhuga á Valverde - Guehi gæti farið til Tottenham - Frank hefur líka áhuga á Collins
   mið 01. október 2025 21:13
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: PSG vann dramatískan sigur á Barcelona - Haaland skoraði tvö í svekkjandi jafntefli
Evrópumeistararnir unnu Barcelona og var hinn 19 ára gamli Senny Mayulu meðal markaskorara
Evrópumeistararnir unnu Barcelona og var hinn 19 ára gamli Senny Mayulu meðal markaskorara
Mynd: EPA
Lamine Yamal átti skemmtilega takta í annars svekkjandi tapi
Lamine Yamal átti skemmtilega takta í annars svekkjandi tapi
Mynd: EPA
Haaland er áfram sjóðandi heitur
Haaland er áfram sjóðandi heitur
Mynd: EPA
Gabriel Martinelli skoraði fyrra mark Arsenal
Gabriel Martinelli skoraði fyrra mark Arsenal
Mynd: EPA
Evrópumeistarar Paris Saint-Germain unnu dramatískan 2-1 sigur á Barcelona annarri umferð í deildarkeppni Meistaradeildarinnar á Ólympíuleikvanginum í Barcelona í kvöld. Arsenal lagði Olympiakos að velli, 2-0, á Emirates og þá tapaði Man City óvænt stigum í Mónakó.

Börsungar voru með öll völd stærstan hluta fyrri hálfleiksins og var þar Lamine Yamal sérstaklega í sviðsljósinu.

Táningurinn átti mörg ótrúleg augnablik þar sem hann lék sér að varnarmönnum PSG, en vantaði aðeins meira frá liðsfélögum hans til að klára sóknirnar.

Ilya Zabarnyi bjargaði þá meistarlega á línu frá Ferran Torres áður en Spánverjinn náði loks að koma Barcelona í forystu. Marcus Rashford fékk boltann úti vinstra megin, kom boltanum strax inn á milli varnarmanna og á Torres sem skoraði.

PSG vann sig betur inn í leikinn þegar það leið á fyrri hálfleikinn og náðu Evrópumeistararnir að jafna er Nuno Mendes kom boltanum inn á teiginn á hinn 19 ára gamla Senny Mayulu sem setti boltann yfirvegið í hægra hornið.

Ung sóknarlína hjá PSG í kvöld þar sem margir af þeirra bestu mönnum eru fjarverandi, en Mayulu og hinn 17 ára gamli Ibrahim Mbaye leystu þá Khvicha Kvaratskhelia og Ousmane Dembele af hólmi.

Í síðari hálfleiknum var þetta með svipuðu móti. Barcelona ógnaði og Yamal að leika sér að Nuno Mendes. Portúgalinn var á spjaldi þegar hann tók Yamal niður fyrir utan vítateiginn, en fékk ekki sitt annað gula spjald.

PSG bjargaði á línu í annað sinn í síðari hálfleiknum er Achraf Hakimi, fyrirliði PSG, kom í veg fyrir að Dani Olmo kæmi Börsungum yfir.

Suður-Kóreumaðurinn Lee Kang-In var nálægt því að koma PSG í forystu á 83. mínútu er hann labbaði í gegnum vörnina áður en hann hleypti af skoti en það hafnaði í utanverðu stönginni. Tæpt var það.

Á lokamínútunum kom sigurmarkið. Hakimi fékk boltann úti á hægri vængnum, kom með þessa gullfallegu sendingu fyrir markið og á varamanninn Goncalo Ramos sem setti boltann í netið.

Barcelona kom ekki til baka og vann PSG annan leik sinn í keppninni og það þrátt fyrir að vera án margra lykilmanna, en Barcelona með þrjú stig.

Haaland skoraði tvö en það dugði ekki til í Mónakó

Erling Braut Haaland skoraði bæði mörk Manchester City er liðið tapaði óvænt stigum gegn Mónakó í 2-2 jafntefli á Stade De Louis í Mónakó.

Norðmaðurinn skoraði fyrra mark sitt á 15. mínútu þegar ekkert var í gangi. Josko Gvardiol las hlaup frá Haaland, lyfti boltanum yfir vörnina og á framherjann sem vippaði yfir Philipp Köhn í markinu.

Tveimur mínútum síðar jöfnuðu heimamenn með draumamarki hollenska varnarmannsins Jordan Teze, sem fékk boltann rétt fyrir utan teig og skaut síðan föstu skoti efst í vinstra hornið. Óverjandi fyrir Gianluigi Donnarumma í markinu.

Haaland kom Man City aftur yfir undir lok hálfleiksins með skalla eftir fyrirgjöf Nico O'Reilly.

Phil Foden var algerlega einstakur í leiknum og greinilega búinn að finna sitt gamla form. Góðar fréttir fyrir Man City, enda var hann þeirra besti maður er liðið vann ensku úrvalsdeildina tímabilið 2023-2024.

Man City var miklu meira með boltann í leiknum en var í mestu vandræðum með að loka honum. TIjjani Reijnders átti tilraun sem hafnaði í þverslá sem var í annað sinn í leiknum.

Mónakó kom óvænt til baka undir lokin er Nico Gonzalez fékk á sig víti fyrir hættuspark í teignum. Dómarinn var sendur að skjánum til að skoða atvikið og vítaspyrnudómurinn staðfestur. Eric Dier skoraði úr vítaspyrnunni og tryggði Mónakó stigið.

Mónakó er með aðeins eitt stig en Man City með fjögur stig.

Skyldusigur hjá Arsenal

Arsenal vann 2-0 sigur á Olympiakos á Emirates-leikvanginum í Lundúnum.

Gabriel Martinelli gerði fyrra mark Arsenal á 12. mínútu og það af nokkurra sentimetra færi. Viktor Gyökeres slapp inn fyrir og skaut að marki, en markvörður Grikkjanna varði boltann sem lak síðan í átt að marki.

Martinelli beið þolinmóður til að sjá hvort skot Gyökeres myndi leka inn í netið, en hann hafnaði í stöng áður en Martinelli skoraði úr frákastinu.

Olympiakos fékk hörkufæri til að jafna metin nokkrum mínútum síðar er Daniel Podence mætti á ferðinni inn í teiginn og stýrði boltanum sem var á leið efst í hornið en David Raya bauð upp á heimsklassa markvörslu.

Grikkirnir töldu sig hafa jafnað metin er Portúgalinn Chiquinho kom honum í netið. Ayoub El Kaabi var rangstæður í aðdragandanum og markið tekið af gestunum.

Martin Ödegaard fékk tvö frábær færi til að ganga frá leiknum undir lokin. Hann fékk sendingu inn í teiginn og í algeru dauðafæri en lét verja frá sér. Boltinn hrökk aftur til hans en aftur björguðu Olympiakos-menn.

Illa farið með tvö góð færi en Norðmaðurinn bætti upp fyrir það með stoðsendingu á Bukayo Saka undir lok leiks og 2-0 sigur Arsenal staðreynd. Arsenal með fullt hús stiga eftir tvær umferðir en Olympiakos með eitt stig.

Höjlund og De Bruyne-tengingin er öflug

Rasmus Höjlund og Kevin De Bruyne sáu um að sækja 2-1 sigur fyrir Napoli gegn Sporting.

Höjlund náði sér aldrei á strik hjá Manchester United, en sá er að byrja vel með Napoli. Hann hljóp inn á stungusendingu De Bruyne snemma leiks og skoraði af öryggi.

Sporting jafnaði metin áður en Höjlund tryggði sigurinn með skalla á nærstönginni eftir glæsilega fyrirgjöf De Bruyne.

Höjlund kominn með þrjú mörk fyrir Napoli á tímabilinu og De Bruyne með þrjú mörk og tvær stoðsendingar.

Napoli komið með fyrsta sigurinn í Meistaradeildinni á þessu tímabili og er nú með þrjú stig eins og Sporting.

Borussia Dormund fór illa með Athletic, 4-1, á heimavelli sínum.

Daniel Svensson og Carney Chukwuemeka komu Dortmund í 2-0 áður en Gorka Guruzeta minnkaði muninn. Serhou Guirassy og Julian Brandt náðu síðan að innsigla sigur Dortmund-manna undir lok leiks.

Bayer Leverkusen og PSV skildu jöfn, 1-1, og þá gerðu Villarreal og Juventus 2-2 jafntefli þar sem fyrrum Juventus-maðurinn Renato Veiga jafnaði metin fyrir Villarreal undir lok leiks.

Borussia D. 4 - 1 Athletic
1-0 Daniel Svensson ('28 )
2-0 Carney Chukwuemeka ('50 )
2-1 Gorka Guruzeta ('61 )
3-1 Serhou Guirassy ('82 )
4-1 Julian Brandt ('90 )

Barcelona 1 - 2 Paris Saint Germain
1-0 Ferran Torres ('19 )
1-1 Senny Mayulu ('38 )
1-2 Goncalo Ramos ('90 )

Monaco 2 - 2 Manchester City
0-1 Erling Haaland ('15 )
1-1 Jordan Teze ('18 )
1-2 Erling Haaland ('44 )
2-2 Eric Dier ('90 , víti)

Arsenal 2 - 0 Olympiakos
1-0 Gabriel Martinelli ('12 )
2-0 Bukayo Saka ('90 )

Napoli 2 - 1 Sporting
1-0 Rasmus Hojlund ('36 )
1-1 Luis Suarez ('62 , víti)
2-1 Rasmus Hojlund ('79 )

Bayer 1 - 1 PSV
1-0 Christian Kofane ('65 )
1-1 Ismael Saibari ('72 )

Villarreal 2 - 2 Juventus
1-0 Georges Mikautadze ('18 )
1-1 Federico Gatti ('49 )
1-2 Francisco Conceicao ('56 )
2-2 Renato Veiga ('90 )
Athugasemdir
banner
banner