Síðustu leikjum dagsins er lokið í efstu deild á Ítalíu þar sem danski framherjinn Rasmus Höjlund var hetjan í sigri Ítalíumeistara Napoli á Juventus.
Heimamenn í Napólí tóku forystuna snemma leiks þegar Höjlund skoraði eftir undirbúning frá David Neres. Þeir voru sterkari aðilinn nánast allan leikinn en tyrkneska hæfileikabúntið Kenan Yildiz jafnaði metin snemma í síðari hálfleik.
Napoli var áfram sterkara liðið í nokkuð tíðindalitlum slag og skoraði Höjlund aftur á lokakaflanum til að taka forystuna á ný. Í þetta sinn tókst lærisveinum Antonio Conte að halda út án þess að fá mark á sig, svo lokatölur urðu 2-1.
Napoli er á toppi deildarinnar eftir þennan sigur, með 31 stig eftir 14 umferðir. Juventus situr eftir í sjöunda sæti með 23 stig.
Fyrr í dag gerðu Lazio og Bologna 1-1 jafntefli þar sem danski kantmaðurinn Gustav Isaksen skoraði fyrsta mark leiksins skömmu áður en samlandi hans Jens Ödgaard jafnaði metin. Staðan var 1-1 í hálfleik og þurfti Isaksen að fara meiddur af velli.
Leikurinn var fjörugur og hefðu bæði lið getað bætt við mörkum en niðurstaðan var að lokum jafntefli. Heimamenn í liði Lazio fengu frábær færi til að vinna leikinn í síðari hálfleik en Federico Ravaglia átti stórleik á milli stanga gestanna svo lokatölur urðu 1-1.
Bologna er í fimmta sæti deildarinnar með 25 stig eftir 14 umferðir, sex stigum meira heldur en Lazio.
Napoli 2 - 1 Juventus
1-0 Rasmus Hojlund ('7 )
1-1 Kenan Yildiz ('59 )
2-1 Rasmus Hojlund ('78 )
Lazio 1 - 1 Bologna
1-0 Gustav Isaksen ('38 )
1-1 Jens Odgaard ('40 )
Rautt spjald: Mario Gila, Lazio ('79)
Athugasemdir



