Heimild: BT
Gabríel Snær Gunnarsson, leikmaður ÍA, var á reynslu hjá sænska félaginu Elfsborg í liðinni viku. Gabríel er fæddur árið 2008, hann er framherji sem lék tvo leiki með U19 landsliðinu í síðustu viku eftir að hafa skorað sitt fyrsta mark í keppnisleik með meistaraflokki nokkrum vikum áður.
Hann var til viðtals við staðarmiðilinn Borås Tidning á dögunum.
Hann var til viðtals við staðarmiðilinn Borås Tidning á dögunum.
„Þetta var gott tækifæri fyrir bæði hann og okkur að koma hingað og æfa með okkur til að kynnast fyrir framtíðina," segir Stefan Andreasson sem er framkvæmdastjóri Elfsborg.
Stefan var spurður hvort að möguleiki væri á félagaskiptum strax núna. „Við sjáum til," segir hann. Gabríel segist hafa góða tilfinningu fyrir félaginu.
„Þetta hefur verið gaman. Það er mjög mikil fagmennska hérna og það er góð reynsla að koma og æfa með alvöru atvinnumönnum. Ég er hér í þessari viku og æfi með U19 og A-liðinu. Og svo sjáum við til," segir hann. Hann var spurður hverju hann vonaðist eftir.
„Ég mun bara gera mitt besta og gera það sem ég get til að sýna hvað ég get gert. Ég veit að ég get verið tilbúinn að stíga skrefið um leið og Elfsborg treystir mér og að ég get örugglega náð mjög góðum árangri í framtíðinni," segir Gabríel.
Hann lýsir sér sem framherja sem getur bæði hlaupið bakvið vörnina og tengt við liðsfélagana í uppspilinu. Og rétt eins og faðir hans, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, er hann markaskorari.
„Ég myndi segja að ég væri öflugri tæknilega, betri með boltann við tærnar og þess háttar," segir ungi framherjinn og brosir. Gunnar Heiðar varð markakóngur í sænsku deildinni með Halmstad á sínum tíma.
Hjá Elfsborg eru tveir Íslendingar að spila með aðalliðinu, þeir Júlíus Magnússon og Ari Sigurpálsson.
„Þeir hafa talað mjög vel um Elfsborg og tekið mjög vel á móti mér í þessari viku. Ég þekkti þá ekki persónulega, en ég hef séð þá báða spila," segir Gabríel.
Skagamaðurinn Haraldur Ingólfsson lék með Elfsborg á árunum 1998-2000 en sonur hans, Hákon Arnar, spilar í dag með Lille.
Gunnar Heiðar ræddi um son sinn í viðtali í síðasta mánuði.. Pabbinn er þjálfari HK í Lengjudeildinni og var hann spurður hvort hann gæti reynt að fá soninn á láni til sín.
„Hann á eitt ár eftir (af samningi) og það eru alls konar hlutir í gangi. Ég veit þeir á Skaganum hafa gríðarlega miklar metur á honum á Skaganum. Þeir eru að reyna gera allt til að halda honum eitthvað lengur, en það verður að koma í ljós hvernig það verður."
Athugasemdir


