Marco Silva þjálfari Fulham var að vonum svekktur eftir naumt tap á heimavelli í Lundúnaslag gegn Crystal Palace í dag.
Heimamenn spiluðu fínan leik. Þeir lentu undir í fyrri hálfleik og jöfnuðu fyrir leikhlé. Þeir héldu svo að þeir væru komnir með forystuna í upphafi síðari hálfleiks en ekki var dæmt mark vegna afar naumrar rangstöðu sem uppgötvaðist í VAR-herberginu.
„Þetta er mjög svekkjandi því við áttum ekki skilið að tapa þessum slag. Við vorum fínir í dag en spiluðum boltanum ekki nægilega hratt á milli okkar. Við vorum góðir í fyrri hálfleik og byrjuðum seinni hálfleikinn vel, við settum boltann í netið en það var dæmt af og það er mjög sárt að tala um það atvik. Nöglin á (Samuel) Chukwueze hefur verið of stór," sagði Silva.
„Þetta tímabil hefur verið mjög erfitt fyrir okkur þegar kemur að dómaraákvörðunum, þetta er enn ein VAR-ákvörðunin sem fellur gegn okkur. Strákarnir áttu skilið að skora þetta mark.
„Við náðum ekki að skapa nægilega mikið af færum og því miður þá gáfum við þeim alltof auðvelt mark sem við áttum ekki að fá á okkur. Ef þú getur ekki unnið þá er mikilvægt að tapa ekki."
Fulham er með 17 stig eftir 15 umferðir, fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Athugasemdir


