Það var þungt yfir Mikel Arteta, stjóra Arsenal, eftir 2-1 tap liðsins gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Arsenal var að tapa öðrum deildarleik sínum á tímabilinu en sigurmarkið gerði Emi Buendía á síðustu sekúndum leiksins.
Arteta var ósáttur við margt í leik sinna manna.
„Það er mjög erfitt að kyngja þessu tapi svona miðað við hvernig þetta gerðist allt saman,“ sagði Arteta.
„Við áttum okkar augnablik í fyrri hálfleiknum. Þeir áttu besta færið, en mér fannst brotið á Riccy (Riccardo Calafiori) þegar Watkins komst í gegn. Eftir það náðum við stjórn á leiknum og komumst í góðar stöður, en maður er alltaf á nippinu, sérstaklega þegar þú nærð ekki að halda nógu vel í boltann eftir að þú nærð honum. Það var eitthvað sem við gerðum ekki nógu vel í fyrri hálfleiknum.“
„Í seinni hálfleiknum byrjuðum við vel. Við skoruðum mark, vorum með yfirráð, en svo komu kaflar þar sem sömu vandamál komu upp.“
„Við vorum ekki með sömu yfirráð og skildum eftir mörg opin svæði. Við gáfum tvo bolta frá okkur sem hefði getað kostað okur leikinn áður en sigurmarkið kom og síðan skoruðum við ekki úr færinu þegar Declan kom boltanum á Noni og Viktor. Við skorum ekki og það kemur langt útspark fram, seinni boltinn, hreinsað frá og svo kemur mikil ringulreið í teignum og við töpum leiknum. Það er mjög sársaukafullt,“ sagði svekktur Arteta.
Arsenal er áfram á toppnum með 33 stig, en nú aðeins með þriggja stiga forystu sem gæti minnkað niður í tvö stig ef Manchester City tekst að vinna Sunderland á Etihad.
Athugasemdir



