Salah orðaður við Sádi-Arabíu og Tyrkland - Man Utd fær samkeppni frá Real Madrid um grískan táning - Spurs gætu gert tilboð í Van Hecke
   fös 05. desember 2025 13:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fimmtán Íslandsmeistaratitlar í einu þjálfarateymi - „Þetta eru toppmenn"
Óskar Örn Hauksson og Pablo Punyed handsala hér samning við Hauka.
Óskar Örn Hauksson og Pablo Punyed handsala hér samning við Hauka.
Mynd: Haukar
Guðjón Pétur tók við Haukum í vetur.
Guðjón Pétur tók við Haukum í vetur.
Mynd: Haukar
Haukar fagna marki.
Haukar fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Daði Lárusson.
Daði Lárusson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er óhætt að segja að Haukar séu komnir með eitt áhugaverðasta þjálfarateymið í fótboltanum á Íslandi. Í teyminu eru núna fjórir menn sem hafa samtals unnið 15 Íslandsmeistaratitla og fjölda annarra titla ofan á það.

Guðjón Pétur Lýðsson tók við þjálfun Hauka eftir síðasta tímabil en hann hefur fengið þá Pablo Punyed, Óskar Örn Hauksson og Daða Lárusson með sér í teymið. Pablo verður spilandi aðstoðarþjálfari, Óskar verður aðstoðar- og styrktarþjálfari og Daði sér um að þjálfa markverðina.

„Þetta eru toppmenn," sagði Guðjón Pétur þegar hann ræddi við Fótbolta.net í dag.

En hvernig gerðist þetta allt saman?

„Í fyrsta lagi þarftu að selja ákveðna hugmynd. Það er það sem menn keyptu; að Haukar séu félag sem á mjög mikið inni og með allt til alls að geta byggt upp gott fótboltalið. Við teljum okkur hafa þekkingu til að nýta í þeim fasa. Hvernig við náðum þeim, það var mjög mikið til félagið sjálft sem nær því út frá aðstöðu, hópnum sem er mjög spennandi og fólkinu í kring. Það er mjög mikil uppbygging í baklandinu."

Risastórt fyrir Hafnarfjörðinn og Haukana
Pablo Punyed er einn mesti sigurvegari í sögu íslenska fótboltans. Hann á flesta Íslandsmeistaratitla í teyminu, eða fimm talsins. Hann hefur síðustu árin spilað með Íslandsmeisturum Víkings og reyndist mikill happafengur þegar hann kom í Fossvoginn fyrir nokkrum árum. Það er spurning hvort hann verði eins mikill happafengur fyrir Hauka sem hafa verið fastir í 2. deild síðan 2020.

„Þetta er þvílíkur hvalreki fyrir félagið í heild. Hann er fyrirmynd fyrir leikmennina í hópnum og fyrir klúbbinn sem heild þar sem hann er með mikla þekkingu sem afreksmaður sem veit um hvað þetta snýst og er tilbúinn að leggja ótrulega mikið á sig til að hámarka sína getu," sagði Guðjón Pétur.

„Það er ótrúlega mikilvægt fyrir okkur sem félag að fá inn svona gæja sem getur miðlað þekkingu sinni sem leikmaður, taktískum skilningi og sömuleiðis mannlega þættinum. Það er risastórt fyrir Hafnarfjörðinn og Haukana að fá svona mann inn."

Verður Pablo ekki langbesti leikmaðurinn í 2. deild í sumar?

„Það sem Pablo verður er að hann verður góður partur af góðri heild. Við erum með góðan hóp og flotta unga stráka. Pablo getur hjálpað til að þeir láti ljós sitt skína. Pablo er auðvitað frábær leikmaður og verður gífurlega mikilvægur en hann einn og sér vinnur ekki neitt nema hinir dansi með honum. Ég set meiri pressu á ungu strákana en Pablo."

„Ég er ótrúlega stoltur að Pablo hafi séð plúsana sem Haukarnir hafa fram á að bjóða. Við vitum að honum stóð til boða fjárhagslega betri samningar annars staðar en við gerðum allt sem við gátum til að sannfæra hann um að Haukar væru rétta félagið fyrir hann," sagði Guðjón Pétur.

Spilaði með Óskari og Daða
Svo eru Óskar Örn og Daði líka miklir sigurvegarar en Guðjón Pétur spilaði með þeim báðum á sínum ferli.

„Það sem seldi þeim að koma í Hauka var að vera partur af góðu teymi sem hafa svipaða sýn á fótbolta og telja sig vita hvað þarf til að búa til góða liðsheild, góðan hóp og gott fótboltalið. Nöfnin vinna ekki eitt né neitt, það þarf að leggja inn mikla vinnu og við erum svo sannarlega að gera það," segir Guðjón Pétur.

„Ég spilaði náttúrulega bæði með Óskari og Daða. Þeir eru góðir félagar mínir og miklir toppmenn. Þegar þeir komu hingað á Ásvelli þá sáu þeir aðstöðuna og ég kynnti þeim líka fyrir hópnum en við erum með mjög spennandi lið."

Guðjón Pétur og Pablo hafa bara verið andstæðingar í gegnum sinn feril en vinna núna saman.

„Tengingin við Pablo er sú að við mættumst á vellinum. Hann er alvöru gæi og við höfum átt margar rimmur. Það er mikil virðing þarna á milli. Ég held að hann sjái mig með jákvæðum augum og finnst spennandi að vinna með mér. Það á við um allt teymið. Við erum með svipað hugarfar um fótbolta og þetta ætti að geta orðið helvíti spennandi sumar á Ásvöllum."

Jákvæð teikn á lofti
Guðjón Pétur er á leið inn í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari Hauka en hann lagði skóna á hilluna eftir síðasta sumar. Liðið er byrjað að undirbúa sig fyrir átökin næsta sumar og markmiðið er að koma félaginu upp um deild, loksins.

„Það hefur gengið vel. Við spiluðum við ÍR um síðustu helgi og það var flottur leikur. ÍR er með þrusulið. Við unnum 2-1 en það var mjög jafn leikur. Svo spiluðum við Fylki helgina á undan. Þetta hafa verið góðir leikir og fínt upphaf á þessari vegferð okkar að reyna að koma félaginu að lágmarki í 1. deild. Það eru jákvæð teikn á lofti en á endanum þurfa leikmenn og félagið í heild að leggja mikla vinnu á sig. Við þurfum að læra að vera alvöru félag og fólk þarf að styðja við okkur með því að koma á völlinn og styðja við okkur í starfinu. Það þurfa allir að hjálpast að við að ná árangri," sagði þjálfari Hauka að lokum.
Athugasemdir