Viktor bætti met Lamine Yamal er hann skoraði annað mark sitt í Meistaradeildinni á dögunum. Hann varð yngsti leikmaðurinn til að afreka það.
Ungstirnið Viktor Bjarki Daðason hefur farið á kostum með FC Kaupmannahöfn í upphafi tímabils. Hann bætti met Lamine Yamal þegar hann skoraði sitt annað mark í Meistaradeildinni á dögunum. Hann hélt áfram uppteknum hætti í síðasta leik þar sem hann skoraði tvö mörk og lagði upp annað í 4-2 bikarsigri á Esbjerg.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, fór fögrum orðum um sinn fyrrum lærisvein í útvarpsþætti Fótbolta.net á dögunum.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, fór fögrum orðum um sinn fyrrum lærisvein í útvarpsþætti Fótbolta.net á dögunum.
„Hann er ótrúlega flottur, maður sér hversu þroskaður hann er og þá sérstaklega í viðtölum eftir leik. Það segir margt, það er svo mikið í hann spunnið ekki einungis á vellinum. Hann er skýr í svörum og með fæturna niðri á jörðinni.“
„Þegar ég kem í Fram fyrir tæpum tveimur árum þá voru viðræður við FCK langt komnar en við þurftum að sinna honum í þessa átta mánuði. Hann spilaði slatta hjá okkur, við gáfum honum mínútur hér og þar. Hann var algjörlega frábær og bætti sig mikið hjá okkur á þessum stutta tíma, þar sem hann var að takast á við Kennie Chopart og fleiri þroskaða Bestu-deildar leikmenn. Hann lærði fullt hjá okkur en svo hefur hann bætt sig gríðarlega á þessu rúma ári sem hann hefur verið úti hjá FCK,“ sagði Rúnar.
Hann var því næst spurður hversu langt Viktor gæti náð.
„Ég veit bara að eftir þetta fyrsta mark hans á móti Dortmund og seinna markið í Meistaradeildinni að stóru liðin eru byrjuð að fylgjast með honum. Hann er með ákveðið 'edge' - Þessi mikla hæð og markheppnin sem hann hefur sýnt í þessum tveimur leikjum. Innkomurnar hans í deildinni, hann er búinn að leggja upp og fengið mörg færi. Hann er á réttum stað, hefur mikla tækni miðað við að vera svona stór og hefur gott vald á líkamanum sínum, þrátt fyrir þessa hæð sem margir eiga oft í vandræðum með.
Svo er hann líka klár, þú þarft að hafa hausinn með þér í þessu til að ná langt. Það þýðir ekki að vera bara flinkur í fótbolta, það er svo margt sem gerist utan vallar. Akkúrat núna er hann í þeirri stöðu að þurfa vernd frá þjálfaranum, liðsfélögum og fjölskyldu. Áreitið sem sautján ára strákur fær eftir að hafa skorað tvö mörk í Meistaradeildinni og taka metið af Yamal er mikið. Augu og eyru allra eru á honum.“
Athugasemdir




