Sænski framherjinn Alexander Isak segist búast við meiru af sjálfum, en ferill hans hjá Liverpool hefur farið hægt af stað.
Liverpool keypti Isak fyrir metfé frá Newcastle United undir lok félagaskiptagluggans.
Hann missti af öllu undirbúningstímabilinu til að þrýsta í gegn sölu til Liverpool og því ekki verið upp á sitt besta. Þá hefur hann átt erfitt með að aðlagast leikkerfi Arne Slot.
Isak hefur aðeins skorað tvö mörk í öllum keppnum. Kaupin hafa verið gagnrýnd, en Isak pælir lítið í því.
„Auðvitað býst ég við meiru af sjálfum mér. Það hefur alltaf verið þannig, jafnvel þegar ég er að gera vel, en ég vil alltaf meira og það er ekkert vandamál fyrir mig. Ég er bara að reyna vera jákvæður, gera betur og það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera.“
„Já, auðvitað. Ég er fyrstur til að vita það og veit best hvenær ég er að gera vel og hvenær ég er ekki að gera vel. Ég þarf engan til þess að segja mér hvernig mér er að ganga, þannig það er ekkert vandamál,“ sagði Isak.
Líkamlega líður honum ágætlega en segist þó ekki vera í sínu besta formi.
„Nei, líklega ekki. Líkamlega hefur mér ekki liðið 100 prósent, en það er samt ekki besta leiðin til að dæma sjálfan sig. Þegar ég er á vellinum vil ég gera vel, en já það er augljóslega meira í mig spunnið,“ sagði Isak enn fremur.
Athugasemdir



