Tony Bloom, eigandi Brighton í ensku úrvalsdeildinni, hafnar ásökunum Guardian um að hann hafi veðjað á leiki félagsins síðan hann eignaðist það fyrir sextán árum.
Bloom keypti Brighton árið 2009 en hann er vel þekktur í veðmálaheiminum og er eigandi StarLizard sem sérhæfir sig í veðmálaráðgjöf.
Guardian heldur því fram að Bloom sé höfuðpaurinn yfir 600 milljóna punda veðmálahring og gengur þar undir nafninu Jón Jónsson (e. John Doe), en það er minnst á það nafn í dómsmáli í Bandaríkjunum þar sem reynt er að svipta hulunni nafnlausum manni sem er á svakalegu skriði og talið að hann hafi grætt um 52 milljónir punda á nokkrum árum.
Samkvæmt reglum enska fótboltasambandsins mega eigendur enskra úrvalsdeildarfélaga ekki veðja á leiki eða keppnir hjá eigin félögum, en hann má hins vegar veðja á aðrar keppnir samkvæmt reglugerð sambandsins frá 2014.
Bloom hafnar því alfarið að hafa veðjað á leiki Brighton og segir ásakanir Guardian út í hött.
„Eftir ónákvæma og villandi frétt Guardian í kvöld get ég fullvissað stuðningsmenn okkar um að ég hafi ekki veðjað á leiki Brighton síðan ég eignaðist félagið árið 2009. Árið 2014 kom enska fótboltasambandið með nýjar reglur er koma að veðmálum sem voru mjög þungar fyrir eigendur fótboltaliða sem hafa áhuga á veðmálum. Þessar ráðstafanir leyfa ákveðnum eigendum, þar á meðal mér, að halda áfram að veðja á fótbolta undir mjög ströngum skilyrðum. Sú reglugerð bannar mér að veðja á leiki eða keppnir sem Brighton er þátttakandi í. Síðan 2014 hef ég alltaf farið eftir þessum skilyrðum og öll veðmál mín í fótbolta eru árlega skoðuð af stærstu bókhaldsfyrirtækjum heims til að tryggja að farið sé eftir reglum sambandsins.“
„Lögfræðingar mínir hafa sett sig í beint samband við Guardian til að gera afstöðu mína gegn þessum fölsku ásökunum skýra. Einnig er Brighton í beinu sambandi við bæði enska fótboltasambandið og ensku úrvalsdeildina varðandi þetta mál,“ sagði Bloom í yfirlýsingu.
Athugasemdir




