„Það er hætta á að menn verða saddir eða taki þessu sem sjálfsögðum hlut þegar það hefur verið mikil velgengni í þessi ár. Við megum samt ekki gleyma því að við erum búnir að vinna þetta annað hvert ár. Þannig að hungrið kemur alltaf eftir hvert tímabil þegar við vinnum þetta. Síðan erum við með nýja leikmenn sem hafa aldrei unnið landstitil áður. Við erum með allaveganna einn í teyminu sem hefur ekki unnið þetta áður, þannig að hungrið var mjög mikið. Við sáum það á nokkrum leikmönnum í liðinu, þeir virkilega vildu þetta sem er mikilvægt í sigursælum liðum, að þú haldir áfram að rótera í liðinu og öllu í kring.“
Sagði Sölvi Geir Ottesen þjálfari Íslandsmeistara Víkings í útvarpsþættinum Fótbolti.net er hann var spurður um fögnuð liðsins eftir leikinn sem tryggði þeim Íslandsmeistaratitilinn.
Sölvi var því næst spurður hvort að hann væri búinn að gera upp tímabilið og hvernig það væri að stýra liðinu á sínu fyrsta tímabili.
„Já, þú gerir það svolítið samhliða tímabilinu. Þú ert alltaf að efast mikið um sjálfan þig, ég held að allir þjálfarar gangi í gegnum það, efast ákvörðunartöku sína og efast hvort þeir séu að gera rétt. Ég held að það sé hollt, til þess að læra af hlutum þarftu að vera sjálfsgagnrýninn. Þetta var mjög lærdómsríkt ár fyrir mig sem nýr þjálfari. Ég hef aldrei þjálfað á ævinni, aldrei þjálfað 2., 3. flokk eða neitt. Þetta var fyrsta giggið mitt sem aðalþjálfari.“
„Það var ekki bara að þetta hafi verið fyrsta starfið mitt, heldur var þetta líka stórt starf. Miklar kröfur og væntingar gerðar. Þetta reyndi alveg á ég viðurkenni það, en það var aldrei neinn efi í mér að ég gæti þetta ekki. Ég veit að maður lærir á leiðinni, maður tekur þessu sem er og aðlagast umhverfinu. Ég var líka með virkilega gott teymi með mér.“
Tapið gegn Bröndby vendipunktur
Víkingar unnu frækinn 3-0 sigur gegn Bröndby á Víkingsvelli í forkeppni Sambandsdeildarinnar en úti í Danmörku fengu þeir 4-0 skell þrátt fyrir að vera manni fleiri og féllu þar með úr leik. Sölvi ásamt leikmönnum Víkings hafa sagt að tapið úti í Danmörku hafi verið ákveðinn vendipunktur á tímabilinu.
„Þetta er sennilega það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Við spilum þrjá virkilega góða hálfleika gegn risa klúbbi eins og Bröndby. Fyrri leikurinn var til fyrirmyndar, rúlluðum þeim upp. Við byrjum fyrri hálfleikinn úti bara vel fyrir þetta rauða spjald. Það er eins og að eitthvað gerist eftir þetta rauða spjald.“
„Ég er með smá kenningu um þetta rauða spjald. Þetta er allt saman efnaskipti í hausnum á þér sem koma fram. Þú ferð inn í leikinn með ákveðið spennustig, við það hækkar adrenalínið og með hækkandi adrenalíni eykst einbeitingin. Um leið og það kemur einhver vendipunktur eins og rautt spjald, hvernig hugsar liðið - Nú lítur þetta vel út, nú getum við slakað á. Þá minnkar spennustigið. En hjá þeim þurftu þeir að spíta í lófana. Þá hækkar adrenalínið hjá þeim, við sjáum þetta oft. Lið sem lenda manni fleiri eru að 'ströggla'.“
Sölvi segir jafnframt um erfiðan útivöll hafi verið að ræða og erfitt að fá á sig mark rétt fyrir hálfleik.
„Við nýttum okkur þetta. Ég sagði við strákana að við gætum ekki látið þetta tap skilgreina okkur eða tímabilið okkar. Þetta er alltof sársaukafullt til að taka ekki neitt út úr þessu. Við þurftum að taka eitthvað og halda áfram með okkar vegferð. Við settum okkur þrjú háleit markmið: Komast í Sambandsdeildina, vinna Mjólkurbikarinn og verða Íslandsmeistarar. Nú voru tvö af þessum markmiðum farin í vaskinn og við gátum einbeitt okkur að taka titilinn.“
„Við töluðum líka um að fórna ákveðnum hlutum í okkar lífi. Hvort sem það var að spila golf eða vaka fram eftir nóttu. Nú þurftum við bara að vera fagmannlegir og lifa í þessu fótboltaumhverfi. Leikmennirnir tóku líka fund sín á milli. Mikið af reynslumikið leikmönnum sem tóku þetta inn á sig. Það voru allir staðráðnir í að gera betur,“ sagði Sölvi að lokum.