Man Utd horfir til markvarðarins Martínez - Díaz vill fara frá Liverpool til Bayern
   þri 22. júlí 2025 20:30
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Blikar áttu ekki möguleika eftir rauða spjaldið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Lech Poznan 7 - 1 Breiðablik
1-0 Antonio Milic ('3)
1-1 Höskuldur Gunnlaugsson ('27, víti)
2-1 Mikael Ishak ('36, víti)
3-1 Joel Pereira ('41)
4-1 Mikael Ishak ('45+3, víti)
5-1 Leo Bengtsson ('45+6)
6-1 Filip Jagiello ('77)
7-1 Mikael Ishak ('83 , víti)
Rautt spjald: Viktor Örn Margeirsson ('31)

Lestu um leikinn: Lech Poznan 7 -  1 Breiðablik

Breiðablik er svo gott sem dottið úr keppni í Meistaradeild Evrópu eftir stórt tap gegn Lech Poznan í Póllandi í kvöld.

Pólverjarnir voru sterkari aðilinn allan leikinn en Blikar héldu í við þá á fyrsta hálftímanum.

Antonio Milic tók forystuna með skalla eftir hornspyrnu snemma leiks en Höskuldi Gunnlaugssyni tókst að jafna metin með marki úr vítaspyrnu á 27. mínútu.

Heimamenn í Poznan höfðu verið sterkari aðilinn á fyrsta hálftímanum en þeir tóku gjörsamlega öll völd á vellinum þegar Viktor Örn Margeirsson fékk að líta beint rautt spjald fyrir brot á 31. mínútu.

Belgíski dómari leiksins dæmdi upprunalega aðeins gult spjald á Viktor Örn en eftir nánari athugun í VAR-herberginu var afmælisbarnið rekið af velli.

Pólverjarnir fengu aukaspyrnu fyrir brotið hans Viktors og komu boltanum inn í vítateig þar sem Arnór Gauti Jónsson var dæmdur brotlegur fyrir peysutog. Dómari leiksins dæmdi upprunalega ekki neitt en breytti um skoðun eftir athugun í VAR. Arnór Gauti fékk gult spjald og skoraði Mikael Ishak örugglega af vítapunktinum.

Joel Pereira tvöfaldaði forystu Poznan skömmu síðar og bættu heimamenn tveimur mörkum við í uppbótartíma til að gera út um viðureignina.

Þeir héldu áfram og skoruðu tvö mörk til viðbótar gegn tíu Blikum í síðari hálfleiknum svo lokatölur urðu 7-1. Fjögur mörk af átta voru skoruð af vítapunktinum, þar sem Ishak gerði vítaspyrnuþrennu.

Blikar þurfa því sex marka sigur í seinni leiknum á heimavelli.

Með tapi fellur Breiðablik niður í forkeppni Evrópudeildarinnar og mætir þar sigurliðinu úr viðureign Slovan Bratislava gegn Zrinjski Mostar.

Blikar steinlágu gegn Zrinjski þegar liðin mættust í forkeppni Evrópudeildarinnar fyrir tveimur árum.
Athugasemdir