Ítalski þjálfarinn Walter Mazzarri er búinn að landa nýju þjálfarastarfi en hann er óvænt að taka við íranska liðinu Esteghlal. Þetta segir ítalski íþróttafréttamaðurinn Rudy Galetti í dag.
Mazzarri er reyndur þjálfari sem hefur þjálfað lið á borð við Inter, Napoli, Sampdoria og Watford.
Hann stýrði Napoli í annað sinn er hann tók við af Rudi Garcia í nóvember á síðasta ári en var rekinn aðeins fjórum mánuðum siðar eftir slakan árangur.
Ítalinn hefur að mestu haldið sig í heimalandinu en tók eitt tímabil með Watford þar sem honum tókst að halda sæti liðsins í deildinni áður en hann var látinn fara.
Það má því segja að hann sé að taka nokkuð óvænt skref með því að halda til Írans, en þar mun hann stýra Esteghlal. Samkvæmt Galetti er Mazzarri búinn að skrifa undir samning við félagið.
Esteghlal er eitt sigursælasta lið í sögu Írans með tíu deildartitla og sjö bikartitla. Tvisvar hefur liðið komist í úrslitaleik Meistaradeildar Asíu og einnig unnið fjölda titla í Tehran-héraði.
Athugasemdir