Fyrri leikirnir í undanúrslitum Evrópudeildarinnar fara fram í kvöld og mæta tvö ensk úrvalsdeildarlið til leiks.
Manchester United heimsækir spennandi lið Athletic Bilbao til Baskahéraðs á meðan Tottenham fær spútnik lið Bodö/Glimt í heimsókn frá Noregi.
Hér er um gríðarlega áhugaverða slagi að ræða en búast má við að Williams bræðurnir, Nico og Inaki, verði í byrjunarliði Athletic Bilbao á heimavelli. Baskarnir eru þó án Oihan Sancet, síns markahæsta leikmanns, sem er fjarverandi vegna vöðvameiðsla sem gætu einnig haldið honum frá keppni í seinni viðureigninni.
Það eru fleiri meiðsli innan herbúða Rauðu djöflanna þar sem Diogo Dalot, Lisandro Martínez og Joshua Zirkzee verða ekki með. Amad Diallo og Matthijs de Ligt eru að koma til baka eftir meiðsli og eru því tæpir í kvöld, en þeir ferðuðust með hópnum til Spánar í gær.
Ange Postecoglou þjálfari Tottenham hefur endurheimt flestalla lykilmenn sína aftur úr meiðslum og getur því mætt til leiks með sitt sterkasta byrjunarliði gegn Bodö/Glimt.
Norsku gestirnir eru án nokkurra mikilvæga leikmanna en þar má helst nefna Patrick Berg sem er í leikbanni.
Seinni leikirnir fara fram að viku liðinni.
Leikir kvöldsins:
19:00 Athletic Bilbao - Man Utd
19:00 Tottenham - Bodö/Glimt
Athugasemdir