fim 01.maí 2025 14:00 Mynd: Kári |
|

Spá þjálfara í 2. deild: 3. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla þjálfara liðanna í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Nýliðum Kára er spáð þriðja sætinu.
Andri Júlíusson, þjálfari, Sveinbjörn Geir Hlöðversson, formaður, og Marinó Hilmar, leikmaður.
Mynd/Kári
Hektor Bergmann, hér til hægri, er klárlega leikmaður til að fylgjast með. Hér er hann með Garðari Gunnlaugssyni, föður sínum.
Mynd/Kári
1.
2.
3. Kári, 95 stig
4. Dalvík/Reynir, 77 stig
5. Höttur/Huginn, 76 stig
6. Víkingur Ó., 74 stig
7. Haukar, 66 stig
8. Þróttur V., 60 stig
9. Ægir, 56 stig
10. KFG, 39 stig
11. Víðir, 33 stig
12. Kormákur/Hvöt, 16 stig
3. Kári
Káramenn koma inn í 2. deild með kassann úti eftir frábært undirbúningstímabil þar sem bar hæst að þeir lögðu Fylki, sem er spáð góðu gengi í Lengjudeildinni í sumar, í Akraneshöllinni. Það er talað um það núna að það myndist eitthvað brjálæði þegar þú mætir Kára í höllinni upp á Skaga. Það séu leikir bara sem þú vilt ekki spila. Verkefnið með Kára er skemmtilegt en þarna fá margir ungir Skagamenn tækifæri til að spila í meistaraflokki í bland við aðeins reynslumeiri leikmenn. Þetta er venslaverkefni sem hefur gengið vel og þá sérstaklega síðustu árin. Káramenn unnu 3. deildina í fyrra og skoruðu fullt af mörkum, en það má alveg búast við því að þeir verði skemmtilegir í ár.
Þjálfararnir: Andri Júlíusson, Alexander Aron Davorsson og Aron Ýmir Pétursson stýra liðinu saman og þeir gerðu það líka í fyrra með góðum árangri. Þeir voru þjálfarar ársins í fyrra. Allir eru þeir að þjálfa í yngri flokkum ÍA og er tengingin góð á milli. Andri er fyrrum leikmaður ÍA og fyrrum leikmaður Kára líka. Var þar virkilega öflugur leikmaður í mörg ár. Alexander spilaði nú ekki fyrir ÍA en var og er öflugur sóknarmaður og líka auðvitað sterkur og efnilegur þjálfari. Aron Ýmir er uppalinn Skagamaður eins og Andri, og spilaði hann bæði fyrir ÍA og Kára. Hann er í dag yfirþjálfari yngri flokka ÍA ásamt því að vera í þjálfarateymi Kára. Þetta er mjög sterkt teymi eins og hefur sannast.
Stóra spurningin: Hvað vinna þeir marga leiki heima?
Eins og áður segir er ótrúlega erfitt að fara í Akraneshöllina og mæta Kára. Það myndast einhver geðveiki eins og sást í bikarleiknum um daginn. Kári tapaði tveimur leikjum á heimavelli í fyrra en það kæmi ekki á óvart ef þeir yrðu færri í sumar. Liðið er alltaf að verða betra og betra þarna inni. Þeir mæta Stjörnunni á heimavelli í næstu umferð Mjólkurbikarsins og verður virkilega gaman að sjá hvernig það fer.
Grasrótin er nýr hlaðvarpsþáttur sem fjallar alfarið um neðri deildirnar á Íslandi. Þeir velja tvo lykilmenn og einn sem gaman verður að fylgjast með úr hverju liði í 2. deild karla.
Lykilmenn: Marínó Hilmar Ásgeirsson og Marteinn Theodórsson
Marínó er miðjumaður sem á að baki tíu tímabil fyrir Kára og hefur verið í mikilvægu hlutverki inni á miðjunni hjá þeim. Hann þekkir neðri deildirnar mjög vel og kemur með mikla reynslu inn í liðið og leiðbeinir mönnum vel innan vallar. Marteinn er einnig miðjumaður sem hefur spilað nokkur tímabil fyrir Kára en hann var í fyrra í ÍR í Lengjudeildinni og spilaði vel. Hann á að baki þrjá leiki fyrir ÍA í efstu deild árið 2020.
Gaman að fylgjast með: Hektor Bergmann Garðarsson
Hektor er leimaður fæddur árið 2005 sem skoraði níu mörk í 16 leikjum fyrir Kára í 3. deild í fyrra. Hektor virðist skora ef hann spilar því hann er með átta mörk í sjö leikjum á undirbúningstímabilinu og gæti hæglega endað markahæstur í deildinni í sumar. Það verður skemmtilegt að fylgjast með honum í sumar. Er sonur Garðars Bergmanns Gunnlaugssonar, fyrrum markakóngs.
Komnir:
Benedikt Ísar Björgvinsson frá ÍA
Birkir Hrafn Samúelsson frá ÍA (Á láni)
Finnbogi Laxdal Aðalgeirsson frá Haukum
Kasper Úlfarsson frá Skallagrími
Marteinn Theodórsson frá ÍR
Matthías Daði Gunnarsson frá ÍA (Á láni)
Sigurður Hrannar Þorsteinsson frá ÍA
Farnir:
Arnór Valur Ágústsson í ÍA
Axel Freyr Ívarsson í Fjölni
Björn Darri Ásmundsson í Víking Ó.
Logi Mar Hjaltested í ÍA
Ýmir Hjálmsson í Njarðvík
Þjálfarinn segir - Andri Júlíusson
„Að Kára sé spáð þriðja sætinu er bara viðurkenning á það starf sem hefur verið unnið á Akranesi síðustu ár. Sjálfum finnst mér það vel í lagt verandi nýliðar í deildinni en að sjálfsögðu tökum við því og það er markmið okkar að fara inn í alla leiki til þess að vinna þá. Miðað við hversu vel undirbúningstímabilið hefur gengið er kannski ekkert skrítið að spáin sé svona, hafandi unnið alla leikina í Lengjubikar og Mjólkurbikarnum ásamt því að hafa spilað vel gegn Lengjudeildarliðum HK og Fjölnis. Þriðja sætið væri líka besti árangur Kára í deildarkeppni fra? upphafi svo það væri virkilega gaman."
„Sumarið leggst mjög vel í okkur, hlökkum mikið til. Þetta verður mikið af ferðalögum, mikil samvera hjá þessari góðu blöndu af ungum og ungum leikmönnum. Okkur Alla Davors hlakkar mikið til að byggja á þessum góða grunni sem við höfum sem og að blóðga þessa efnilegu stráka sem við eigum. Við erum báðir á því að þeir hafi svakalega gott af því að byrja sinn meistaraflokkferil að spila í þessari deild. Eitthvað sem fleiri lið mega taka til fyrirmyndar, blóðga og treysta ungum strákum til þess að gera íslenska drengi betri og fyrr tilbúna fyrir efri deildir, það mun skila sér."
„Annars bara gleðilegt fótbolta sumar!"
Fyrstu þrír leikir Kára:
3. maí, Kári - Þróttur V. (Akraneshöllin)
10. maí, Höttur/Huginn - Kári (Fellavöllur)
16. maí, Kári - Grótta (Akraneshöllin)
Athugasemdir