Kormákur/Hvöt hefur fengið til sína væna liðsstyrkingu fyrir komandi tímabil í 2. deildinni en serbneski leikmaðurinn Goran Potkozarac er kominn aftur og þá er Dominic Louis Furness mættur frá Tindastóli.
Goran er 31 árs gamall miðjumaður sem hefur verið einn af bestu leikmönnum Kormáks/Hvatar síðustu ár.
Sumarið 2023 var hann valinn í lið ársins í 3. deildinni hjá Ástríðunni og alveg ljóst að þetta er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir Kormák/Hvöt.
Hann spilaði áður með Ægi þar sem hann raðaði inn mörkunum og hjálpaði liðinu að komast upp í 3. deild.
Goran fór aftur til Serbíu eftir síðasta tímabil en Kormákur/Hvöt tilkynnti í febrúar á þessu ári að hann myndi snúa aftur fyrir komandi tímabil. Hann fékk félagaskipti undir lok gluggans og verður því væntanlega klár þegar liðið heimsækir KFA á laugardag.
Þjálfari Kormáks/Hvatar, Dominic Louis Furness, hefur einnig fengið félagaskipti frá TIndastóli.
Furness hefur spilað og þjálfað Tindastól síðustu ár og kom liðinu upp úr 4. deildinni á síðasta ári. Hann tók við Kormáki/Hvöt eftir tímabilið og er nú kominn með félagaskipti. Það er því möguleiki á að hann verði eitthvað með í sumar.
Hann er 36 ára gamall miðjumaður sem á 63 leiki og 13 mörk með FH og Tindastóli, en hann hefur spilað víða um allan heim, meðal annars í Bandaríkjunum, Ástralíu, Tælandi og Svíþjóð svo eitthvað sé nefnt.
Athugasemdir