,,Er ekki að sveifla einhverjum töfrasprota"
'Alls staðar þar sem ég hef verið hafa klefarnir verið mjög heilbrigðir og samstilltir sem hefur verið grunnurinn að góðum árangri.'
'Það á að breyta aðeins í strúktúrnum, fara aðeins meira í yngri leikmenn og reyna að tengjast klúbbnum og áhangendum'
Hermann Hreiðarsson var á sunnudag kynntur sem nýr þjálfari Vals. Þessi fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður tekur við þjálfarastarfinu af Túfa sem hafði þjálfað Val í rúmt ár. Hermann kemur frá HK sem hann kom í úrslitaleik Lengjudeildarumspilsins í haust.
Hermann er á leið í sitt stærsta starf á þjálfaraferlinum. Fótbolti.net ræddi við Eyjamanninn í dag.
Hermann er á leið í sitt stærsta starf á þjálfaraferlinum. Fótbolti.net ræddi við Eyjamanninn í dag.
„Ég er hrikalega spenntur og stoltur að vera kominn inn í þennan risastóra klúbb, rosalega spenntur fyrir því sem er framundan," segir Hermann.
„Ég er stoltur að fá kallið frá Val, eins og allir vita eru nokkrir klúbbar þar sem eru stærri tækifæri í og Valur er þar á meðal. Menn stefna á toppinn og eru metnaðarfullir í sínu starfi. Ég er gríðarlega metnaðarfullur og mig langar að festa mig alltaf á eins háu 'leveli' og hægt er."
Hermann er metnaðarfullur og stefnir hátt, en kom honum á óvart að Valur hafði samband á þessum tímapunkti?
„Ég hef óbilandi trú á sjálfum mér þannig það kom ekki á óvart, en þetta var kannski svolítið óvænt ef ég á að segja alveg eins og er. Ég var búinn með eitt ár hjá HK, í gríðarlega skemmtilegu verkefni, og var mjög spenntur fyrir því."
Hvað langar þig að gera sem þjálfari Vals?
„Stefnan er skýr, frá fyrsta fundi sá ég að þarna var klárlega samleið, það á að breyta aðeins í strúktúrnum, fara aðeins meira í yngri leikmenn og reyna að tengjast klúbbnum og áhangendum. Eitt af mínum sérkennum er að gefa ungum leikmönnum tækifæri, gefa þeim stóra sviðið og á sama tíma hjálpa þeim að bæta sig og ná eins langt og þeir geta."
Á fundunum með stjórn Vals, var rætt um titla? Er krafa á titil á Hlíðarenda á hverju tímabili?
„Ég held að það segi sjálft, en ég held það sé krafa á ansi mörgum að ná í titil. Það gæti tekið einhvern tíma að breyta aðeins strúktúrnum, yngja upp í liðinu og fá menn inn sem við sjáum að hafa hátt þak og geti tekið framförum. Að sama skapi er þetta risaklúbbur sem vill keppast um að vinna alla titla. Það helst í sjálfsögðu í hendur."
Hvað er það sem þú vilt ná að innleiða hjá leikmannahópnum strax í upphafi?
„Í byrjun er maður að kynnast mönnum. Ég veit að það eru margir frábærir fótboltamenn í hópnum og þetta er hörkulið. Ég vil sjá hvernig mönnum líður og hvað vantar upp á. Ég er ekki að sveifla einhverjum töfrasprota, en er með mínar áherslur á það hvernig ávana maður vill að menn hafi og standi fyrir. Það verður farið í grunngildin með það og það verða allir að vera tilbúnir í að leggja inn vinnu - að grunngildin og attitjúdið sé upp á tíu."
Þegar þú stendur á hliðarlínunni, hvað er það sem þú vilt sjá frá þínu Valsliði?
„Það er ansi margt, get ekki farið í öllu smáatriði, en það fer líka eftir því hvernig liðið verður og við erum ekki alveg búnir að móta hópinn. Það eru hæfileikaríkir fótboltamenn í hópnum og til þess að þeir skíni þarf liðið að hafa boltann, nota hann vel, hvort sem það er í mörgum sóknum eða færri. Það eru margir leiðir, fyrst og fremst vil ég sjá alvöru hungur og vinnueðli af því það er grunnurinn."
Hvað er það sem þú vilt gera hjá Val? Vilt þú breyta hlutunum, fylgja nýja strúktúrnum og enda svo með titli - eða er það kannski ekki aðalatriðið?
„Það helst aðeins í hendur hversu hratt breytingarnar munu eiga sér stað - hversu hratt við munum ná að innleiða nýja hluti. Það er fyrsta markmiðið, ég vil að vinnuumhverfið verði heilbrigt og þegar það er þannig þá er það skemmtilegra fyrir alla og menn eru líklegri til að taka stór skref fram á við."
„Okkur langar öllum að vinna titla, hvort sem það er krafa eða ekki, en fyrst og fremst vil ég að fótboltaliðið verði gott í heildina."
Það gefur auga leið að Valur mun fá inn einhverja leikmenn í vetur. Ertu að horfa í ákveðnar týpur sem þú vilt fá inn í félagið?
„Já, ég er að því. Við erum með ákveðinn strúktúr í því. Karakter manna er risaatriði og alls staðar þar sem ég hef verið hafa klefarnir verið mjög heilbrigðir og samstilltir sem hefur verið grunnurinn að góðum árangri."
Hefur þú horft yfir tímabilið 2025 hjá Val og hugsað hvað þér fannst vanta?
„Ég fylgdist vel með í sumar, í heildina var þetta mjög sterkt tímabil í heildina. Það komu högg í kringum bikarúrslitaleikinn, svoleiðis getur gerst. Í heildina myndi ég segja að þetta hafi verið nokkuð sterkt fótboltatímabil hjá Val."
Hvernig er að yfirgefa HK á þessum tímapunkti? Er auðvelt að segja við menn þar að þú sért farinn annað?
„Nei, langt frá því. Þetta ár í HK var frábært og maður tengdist leikmönnum og klúbbnum hrikalega vel. Þegar ég hugsa til baka þá var ekki neinn einasti neikvæður punktur sem ég get sett fingurinn á. Það var allt jákvætt við þetta, mjög faglegt í alla staði og spennandi verkefni sem ég var í. En það er ekki á hverjum degi sem þú færð tækifæri á að skoða einn af stærri klúbbunum á Íslandi. Stjórnin hjá HK sýndi því skilning og ég er mjög þakklátur fyrir það. Ég gerði þriggja ára samning við HK og vildi standa við það, en svo kemur svona tækifæri og ég vildi auðvitað skoða það grafalvarlega og fékk það," segir Hermann.
Athugasemdir

