Hrannar Björn Steingrímsson gæti kvatt KA í vetur en hann hefur verið hjá félaginu síðan 2014 þegar hann kom frá Völsungi. Samningur hans við KA rennur út um miðjan mánuðinn.
Hrannar er 33 ára bakvörður sem hefur leikið 156 leiki í efstu deild. Fótbolti.net ræddi við Hrannar í dag.
Hrannar er 33 ára bakvörður sem hefur leikið 156 leiki í efstu deild. Fótbolti.net ræddi við Hrannar í dag.
„Staðan er þannig að ég er að verða samningslaus um miðjan nóvember. KA hefur talað við mig, ég er búinn að fara á fund með Hadda (þjálfara) og stjórninni líka. Sævar (framkvæmdastjóri) vill svo tala meira við mig þegar ég kem heim. Það er ekkert orðið ljóst í þessu, ég er bara að slaka á og ekkert að drífa mig," segir Hrannar sem nýtur lífsins í sólinni á Tenerife þessa dagana.
„Ég veit ekki alveg hvað ég vil gera, ég er til í að skoða allt sem kemur. Það hefur ekkert annað félag haft samband, en ég hef fengið nokkur skilaboð frá mönnum sem tengjast - samtöl í gegnum þriðja aðila hvort ég hafi áhuga. Ég hef svarað því að það sé allt opið og það skipti í raun engu máli hvar það sé á landinu eða í hvaða deild það er. Ég er búinn með níu tímabil í efstu deild, finnst ég ekki þurfa að sanna eitt eða neitt fyrir neinum. Ég veit að ég hef getuna til þess að spila í efstu deild, en það er kannski ekki efst á baugi hjá mér í dag eins og það var kannski fyrir 2-3 árum þegar ég framlengdi við KA."
Hrannar skoraði sitt þriðja mark í efstu deild í heimasigri gegn FH snemma móts. Bakvörðurinn kom við sögu í nítján leikjum á tímabilinu í Bestu deildinni og spilaði báða leikina gegn Silkeborg í forkeppni Sambandsdeildarinnar.
Varstu sáttur við hlutverkið?
„Framan af var ég sáttur. Síðan ég sleit krossband 2021 hef ég verið í öðruvísi hlutverki en ég hafði fengið að kynnast árinu á undan. Það koma alltaf hliðarmeiðsli hér og þar sem hafa orðið til þess að ég hef þurft að hvíla hér og þar. Ég og þjálfararnir, hvort sem það var Addi Gré eða Haddi, höfum verið í fínu samtali með hvernig álaginu hefur verið stjórnað. Ég hef hvílt leiki hér og þar en hef alltaf horft á mig sem fyrsta kost. Í raun í fyrsta skiptið sem ég hef verið eitthvað ósáttur við mitt hlutverk hjá KA var seinni hluti þessa tímabils, eftir Evrópuleikina."
„Ég spilaði báða Evrópuleikina en svo fékk ég í raun ekki að sjá völlinn nema ef einhver var í banni eða meiddur. Ég átti góða leiki gegn Silkeborg, var einn af betri mönnunum í einvíginu og þar af leiðandi fannst mér mjög furðulegt hvað ég spilaði lítið eftir það."
„Það er samt alltaf þjálfarans að velja liðið og það væri skrítið ef allir 25 í hópnum væru allir alltaf sammála þjálfaranum."
Hefur þú velt þeim möguleika fyrir þér að kalla þetta gott?
„Jájá, ég hef alveg hugsað það. En ég er ekki búinn að ákveða eitt né neitt, fór í frí og tek stöðuna hvort ég vilji halda áfram eða kalla þetta gott. Ég og konan eigum von á barni á næsta ári og það er ýmislegt að breytast hjá manni. Mér finnst ég samt ekkert vera kominn á þann aldur að þurfa að hætta, en ég vil ekki halda áfram í fótbolta nema hausinn sé 100% þar. Ég nenni ekki að vera í fótbolta og gera þetta af hálfum hug. Ég hef leitt hugann af því, en það er alveg jafnmikill möguleiki á því að ég haldi áfram ef eitthvað spennandi kæmi upp á borðið."
Um mitt ár 2021 var settur steinn í götu Hrannars þegar hann sleit krossband á æfingu með KA og missti út stærstan hluta tímabilsins. Hann sneri til baka árið 2022 og lék fyrri hluta þess tímabils á láni með uppeldisfélaginu Völsungi.
Sérðu einhverja sviðsmynd þar sem síðustu leikirnir á ferlinum yrðu spilaðir í grænum búningi?
„Maður hefur alltaf hugsað það þannig. En eftir krossbandsslitin fór ég á láni í Völsung í hálft tímabil þegar ég var að koma mér í gang. Í rauninni fannst mér eins og ég væri búinn að loka þeim hring. Ég hef ekki hugsað það frekar en annað að fara í Völsung, en það er eins með það og annað sem gæti komið upp, ég er opinn fyrir bókstaflega öllu. Það er ekkert sem ég ýti af borðinu ef það kemur upp," segir Hrannar.
Athugasemdir



