Endrick, Marcus Rashford, Kobbie Mainoo, Harvey Elliott og N'Golo Kante og fleiri koma fram í slúðurpakka dagsins.
   sun 02. nóvember 2025 18:10
Ívan Guðjón Baldursson
Kristall og Daníel skópu sigurinn - Viðar með tvær stoðsendingar
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Brann
Mynd: Sparta Rotterdam
Mynd: Aðsent
Það var nóg um að vera hjá Íslendingunum sem leika listir sínar á erlendri grundu í dag. Kristall Máni Ingason og Daníel Leó Grétarsson tryggðu til að mynda sigur fyrir Sönderjyske gegn Vejle í efstu deild danska boltans.

Vejle tók forystuna í fyrri hálfleik en markaskorarinn þeirra fékk rautt spjald tólf mínútum síðar. Kristall Máni Ingason lagði svo jöfnunarmarkið upp skömmu fyrir leikhlé og hélst staðan jöfn allt þar til í uppbótartíma.

Varnarjaxlinn Daníel Leó Grétarsson náði að setja boltann í netið á 93. mínútu til þess að tryggja dýrmætan sigur. Kristall og Daníel léku allan leikinn í liði Sönderjyske sem fer upp í efri hluta deildarinnar með þessum sigri. Þar er liðið með 19 stig eftir 14 umferðir.

Rúnar Þór Sigurgeirsson var ekki með í leikmannahópi Sönderjyske vegna meiðsla.

Breki Baldursson var þá ónotaður varamaður í 3-2 sigri Esbjerg í næstefstu deild. Esbjerg er með 23 stig eftir 15 umferðir og ætlar að reyna að fara upp um deild.



Í efstu deild í Noregi lék Viðar Ari Jónsson fyrstu 60 mínúturnar og lagði upp tvö mörk í þægilegum sigri HamKam gegn Sandefjord. Stefán Ingi Sigurðarson var í byrjunarliði Sandefjord og lék fyrstu 65 mínúturnar.

Þetta er fjórði sigur HamKam í síðustu fimm deildarleikjum og er liðið svo gott sem búið að bjarga sér frá falli. Liðið var lengi vel í fallbaráttu en er núna sex stigum fyrir ofan fallsvæðið. Sandefjord siglir lygnan sjó um miðja deild með 39 stig eftir 27 umferðir.

Á sama tíma töpuðu lærisveinar Freys Alexanderssonar óvænt gegn fallbaráttuliði Bryne. Eggert Aron Guðmundsson lék allan leikinn fyrir Brann en Sævar Atli Magnússon var ekki í hóp vegna meiðsla.

Brann er í þriðja sæti eftir tapið, sem veitir þátttökurétt í forkeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð. Það eru þrjár umferðir eftir og Tromsö gæti reynt að stela þriðja sætinu af Brann.

Hilmir Rafn Mikaelsson var þá ekki í hóp þegar Viking lagði Strömsgodset að velli. Viking náði toppsæti deildarinnar með þessum sigri, eftir að Bodö/Glimt tapaði gegn Vålerenga í gær.

Það er aðeins eitt stig á milli Viking og Bodö/Glimt í titilbaráttunni þegar þrjár umferðir eru eftir.



Í sænska boltanum skildu Djurgården og Göteborg jöfn í Íslendingaslag. Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði Djurgården á meðan Kolbeinn Þórðarson var á sínum stað í liði Gautaborgar.

Opnum leik lauk með markalausu jafntefli þrátt fyrir góð færi á báða bóga, en með þessum úrslitum eru bæði lið dottin úr leik í baráttunni um síðasta Evrópusæti deildarinnar. Tvö stig skilja að á milli liðanna í 5. og 6. sæti.

Halmstad og Brommapojkarna gerðu einnig markalaust jafntefli en Gísli Eyjólfsson og Hlynur Freyr Karlsson voru ekki í leikmannahópunum. Gísli fer til ÍA og riftir við Halmstad.



Í Hollandi fékk Nökkvi Þeyr Þórisson að spila síðustu mínúturnar í tapleik hjá Sparta Rotterdam gegn AZ Alkmaar. AZ var talsvert sterkari aðilinn og klúðraði Troy Parrott vítaspyrnu áður en Kees Smit skoraði eina mark leiksins.

Sparta er í sjöunda sæti með 16 stig eftir 11 umferðir, alveg eins og Utrecht sem vann heimaleik gegn NEC Nijmegen. Kolbeinn Birgir Finnsson var ónotaður varamaður í liði Utrecht.

Í Belgíu var Patrik Sigurður Gunnarsson ekki í hóp vegna meiðsla í sigri Kortrijk á útivelli gegn Beerschot. Kortrijk er í öðru sæti í næstefstu deild og stefnir aftur upp í efstu deild.



Að lokum lék Hörður Björgvin Magnússon allan leikinn í sigri Levadiakos í gríska boltanum. Þetta er annar 90 mínútna leikurinn sem Hörður spilar í röð og aftur hélt Levadiakos markinu hreinu.

Frábær endurkoma hjá Herði sem var frá keppni í langan tíma vegna erfiðra meiðsla. Levadiakos er í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig eftir 9 umferðir.

Sönderjyske 2 - 1 Vejle
0-1 Giorgi Tabatadze ('25)
1-1 Mads Agger ('44)
2-1 Daníel Leó Grétarsson ('93)
Rautt spjald: Giorgi Tabatadze, Vejle ('37)

Esbjerg 3 - 2 B.93

HamKam 3 - 1 Sandefjord

Bryne 2 - 1 Brann

Strömsgodset 1 - 2 Viking

Djurgarden 0 - 0 Göteborg

Halmstad 0 - 0 Brommapojkarna

Sparta Rotterdam 0 - 1 AZ Alkmaar

Utrecht 1 - 0 NEC Nijmegen

Beerschot 1 - 2 Kortrijk

AEL Larissa 0 - 2 Levadiakos

Athugasemdir
banner