Færist nær því að yfirgefa Man Utd - Barca ætlar að kaupa Rashford - Newcastle hefur áhuga á Ederson
   þri 04. nóvember 2025 09:24
Elvar Geir Magnússon
Blikar að fara að mæta heimilislausu toppliði sem Arda Turan stýrir
Donbass Arena hefur ekki verið notaður síðan 2014.
Donbass Arena hefur ekki verið notaður síðan 2014.
Mynd: EPA
Ard Turan stýrir Shaktar.
Ard Turan stýrir Shaktar.
Mynd: EPA
Það er erfitt verkefni sem bíður Breiðabliks á fimmtudaginn þegar það mætir toppliði úkraínsku deildarinnar, Shaktar Donetsk, í Sambandsdeildinni. Leikurinn fer fram í Kraká í Póllandi.

Shaktar hefur skapað sér nafn fyrir góðan árangur í Evrópukeppnum en stjóri liðsins er kunnur kappi, Arda Turan, fyrrum leikmaður Galatasaray, Atletico Madrid, Barcelona og tyrkneska landsliðsins.

Turan tók við Shaktar fyrr á þessu ári en það er hans annað stjórastarf, eftir að hann stýrði Eyüpspor í Istanbúl. Shaktar er á toppi úkraínsku deildarinnar en liðið náði fjögurra stiga forystu með því að vinna Dynamo Kiev í stórleik um liðna helgi.

Heimilislausir vegna stríðsins
Sumarið 2009 var nýr og glæsilegur heimavöllur Shaktar í Donetsk tekinn í notkun, Donbas Arena. Hann hefur hinsvegar staðið auður og ekki verið í notkun síðan 2014 vegna stríðsástandsins í landinu en Donetsk hefur orðið rækilega fyrir barðinu á því.

Liðið hefur verið að flakka með að spila heimaleiki sína í Lviv, Kharkiv eða Kiev en höfuðstöðvar félagsins og æfingasvæði er nú í Kiev. Þar sem UEFA heimilar ekki Evrópuleiki í Úkraínu er Shaktar að spila heimaleiki sína í Sambandsdeildinni í Kraká í Póllandi.

Þar spilar Breiðablik gegn Shaktar á fimmtudaginn, klukkan 17:45 að íslenskum tíma. Blikar eru með eitt stig í Sambandsdeildinni eftir tvær umferðir en Shaktar hefur þrjú stig.
Athugasemdir
banner
banner