Endrick, Marcus Rashford, Kobbie Mainoo, Harvey Elliott og N'Golo Kante og fleiri koma fram í slúðurpakka dagsins.
   sun 02. nóvember 2025 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Ætlar ekki að fagna ef hann skorar á Anfield
Mynd: Real Madrid
Trent ákvað að takast á við nýja áskorun eftir að hafa unnið allt sem var í boði með Liverpool.
Trent ákvað að takast á við nýja áskorun eftir að hafa unnið allt sem var í boði með Liverpool.
Mynd: EPA
Bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold skipti yfir til Real Madrid í sumar og vöktu félagaskiptin mikla reiði meðal stuðningsmanna Liverpool.

Trent ætlaði að fara á frjálsri sölu en Real Madrid borgaði að lokum 10 milljónir punda til að fá hann í sínar raðir fyrir HM félagsliða.

Nokkrum mánuðum eftir félagaskiptin var dregið í deildarkeppni Meistaradeildarinnar og drógust Liverpool og Real Madrid saman. Þau mætast í gríðarlega spennandi slag á Anfield á þriðjudagskvöldið.

„Eftir dráttinn var ég í sambandi við Robbo (Andy Robertson), Mo (Salah) og Ibou (Konaté) og við hlógum saman að þessu. Auðvitað drógumst við saman í Meistaradeildinni. Ég vissi að það kæmi að þessu fyrr eða síðar en bjóst kannski ekki við að það myndi gerast svona snemma," sagði Trent í viðtali við Prime Video.

„Ég þekki liðið og leikmennina mjög vel og veit hversu góðir þeir eru. Þeim hefur ekki verið að ganga sérlega vel undanfarnar vikur en þetta er samt topp lið í hæsta gæðaflokki. Enginn hérna býst við auðveldum leik á Anfield.

„Ég þarf að leggja tilfinningarnar til hliðar og eiga minn besta leik, en ef ég skora þá mun ég ekki fagna."


Trent talaði einnig um hvernig Jude Bellingham hjálpaði honum að taka ákvörðun um að flytja til Madrídar.

„Jude talaði alltaf um það með enska landsliðinu hvað allt væri frábært hjá Real Madrid. Hann sagði að þetta væri ótrúlegt félag og að hann hafði aldrei kynnst öðru eins á sínum ferli. Metnaðurinn í félaginu og þörfin til að sigra er eitthvað sem heillaði mig mikið.

„Mér leið eins og ég þyrfti að skipta um andrúmsloft, mig langaði í nýja áskorun bæði innan og utan vallar. Þetta er draumur að rætast fyrir mig."


Hann ræddi að lokum um muninn á ensku úrvalsdeildinni og La Liga, efstu deild spænska boltans.

„La Liga er aðeins hægari deild. Það er minna af skyndisóknum og hún er ekki jafn líkamleg en hún er erfið á annan hátt. Ég myndi segja að tæknileg geta leikmanna sé mikið hærri hér heldur en í úrvalsdeildinni."
Athugasemdir
banner
banner
banner