Ragnheiður á 37 leiki að baki í Bestu deild kvenna þrátt fyrir ungan aldur. Þá á hún 37 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.
Síðustu leikjum dagsins er lokið hjá Íslendingunum sem leika í kvennaboltanum erlendis, að undanskildri Sveindísi Jane Jónsdóttur sem leikur með Angel City seint í kvöld.
Hin 17 ára gamla Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir kom inn af bekknum í upphafi síðari hálfleiks og lagði upp í 4-0 sigri PEC Zwolle í efstu deild hollenska boltans.
Zwolle vann auðveldlega gegn botnliði NAC Breda og eru Ragnheiður og stöllur með 12 stig eftir 6 umferðir.
Amanda Jacobsen Andradóttir kom inn af bekknum er Twente rúllaði yfir Den Haag í sömu deild. Twente vann fimm marka sigur þar sem Jill Roord, fyrrum leikmaður Bayern, Wolfsburg, Arsenal og Man City, komst á blað.
Twente deilir toppsæti deildarinnar með Ajax, þar sem liðin eiga 16 stig eftir 6 umferðir.
María Catharína Ólafsdóttir Grós var þá í byrjunarliði Linköping sem steinlá gegn Häcken í efstu deild sænska boltans. María fékk að spila fyrstu 83 mínúturnar en tókst ekki að koma í veg fyrir stórt tap.
Linköping er svo gott sem fallið niður um deild þar sem liðið þarf tvo sigra í síðustu tveimur umferðum tímabilsins til að eiga möguleika á að bjarga sér.
Rosengård er einnig í fallbaráttu og náði í stig á heimavelli gegn botnliði Alingsås í dag þrátt fyrir að hafa verið sterkara liðið í leiknum. Ísabella Sara Tryggvadóttir var ónotaður varamaður í liði Rosengård.
Það vekur mikla athygli að Linköping og Rosengård séu í fallbaráttu þar sem Rosengård er ríkjandi meistari í Svíþjóð á meðan Linköping endaði í þriðja sæti deildarinnar árin 2022 og 2023.
Sigdís Eva Bárðardóttir var einnig ónotaður varamaður þegar Norrköping steinlá gegn Hammarby. Norrköping siglir lygnan sjó í efri hluta deildarinnar, með 43 stig eftir 24 umferðir.
Í næstefstu deild í Danmörku byrjaði Guðrún Hermannsdóttir á bekknum hjá Esbjerg í naumu tapi gegn Álaborg.
Í ítalska boltanum sat Katla Tryggvadóttir á bekknum á meðan stöllur hennar í liði Fiorentina lögðu Sassuolo að velli. Fiorentina er með 7 stig eftir 4 umferðir.
Að lokum var Telma Ívarsdóttir á bekknum sem varamarkvörður Rangers í 3-2 tapi gegn Hearts í efstu deild í Skotlandi. Rangers eru í fimmta sæti, með 19 stig eftir 10 umferðir.
PEC Zwolle 4 - 0 NAC Breda
Den Haag 0 - 5 Twente
Hacken 4 - 0 Linköping
Rosengard 0 - 0 Alingsas
Hammarby 4 - 0 Norrköping
Aalborg 2 - 1 Esbjerg
Sassuolo 0 - 1 Fiorentina
Hearts 3 - 2 Rangers
Athugasemdir




