Kane til Barca - Arsenal og Barcelona fylgjast með ungstirni - Liverpool með augastað á Kevin - Branthwaite til Man Utd?
   mán 03. nóvember 2025 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Matti um fræg ummæli Arnars: Fannst ekki gaman að heyra þetta
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Matthías vann sinn 15. stóra titil í síðasta mánuði.
Matthías vann sinn 15. stóra titil í síðasta mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ummæli Arnars Gunnlaugssonar um Matthías Vilhjálmsson í viðtali við Fótbolta.net eftir leik í Reykjavíkurmótinu 2023 vöktu mikla athygli. Matthías var þá tiltölulega nýkominn til Víkings frá FH sem hafði átt mjög erfitt tímabil í Bestu deildinni.

Arnar talaði um að Matthías væri með sjúkdóm, tapsjúkdóm, sem hann yrði að losna við. Matthías var á þessum tímapunkti búinn að vinna marga titla með FH og Rosenborg á sínum ferli.

„Matti hefur komið gríðarlega sterkur inn í okkar klúbb en hann er bara mannlegur. Það er ákveðinn skortur á sjálfstrausti hjá leikmanni sem er að koma frá félagi sem, með fullri virðingu fyrir FH sem er frábær klúbbur, var mikið í því að tapa leikjum í fyrrasumar. Þessi tilfinning að vinna, alveg sama hvort þú ert 35 ára eða 10 ára, ef þú ert orðinn vanur að tapa þá fylgir sá sjúkdómur þér ansi lengi. Það ert bara þú einn með hjálp okkar sem mun koma þér á rétta braut - við vorum svo sem ekki mikið að hjálpa honum í kvöld. Þetta er ákveðinn sjúkdómur sem við þurfum að gefa honum smá lyf við og vonandi ná honum aftur í gang. Hann verður gríðarlega mikilvægur fyrir okkur í sumar," sagði Arnar eftir tap gegn Fram. Arnar reyndist sannspár því Matthías reyndist Víkingum mjög vel.

Matthías Vilhjálmsson lagði skóna á hilluna í síðasta mánuði eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn í annað sinn með Víkingi og sinn 15. stóra titil á ferlinum. Hann var gestur í hlaðvarpsþættinum Kjaftæðið í gær sem er í umsjón Baldvins Borgarssonar. Matthías var spurður út í ummæli Arnars.

„Við áttum aldrei samtal eftir þetta. Mér fannst náttúrulega ekki gaman að heyra þetta eftir minn feril, en kannski var þetta bara hans leið að kveikja einhvern neista eftir leik í Reykjavíkurmótinu," segir Matthías á léttu nótunum. „Þetta hefur fests svolítið við mig, en mér finnst það smá kaldhæðnislegt miðað við alla titlana sem ég var svo heppinn að vinna."

„Ég er á því að Arnar sé besti þjálfari sem ég hef nokkurn tímann haft. Ég er búinn að vera mjög heppinn með þjálfara; Óla Jó á gullaldartíma FH, svo Heimi Guðjóns sem ég á ótrúlega margt að þakka - hann gerði mig að fyrirliða áður en ég fór út til Noregs og er geðveikur karakter. Að fá að vinna með Arnari var tækifæri mig til að byrja að hugsa um næsta skref og fá áfram að vera í toppbaráttu, þetta voru forréttindi fyrir mig,"
segir Matthias í þættinum sem nálgast má hér að neðan.
Kjaftæðið - Aron Sig og Matti Villa ræddu Enska, sumarið og ferilinn!
Athugasemdir
banner