Færist nær því að yfirgefa Man Utd - Barca ætlar að kaupa Rashford - Newcastle hefur áhuga á Ederson
   þri 04. nóvember 2025 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Útskýrir hvernig hann komst upp úr dimmum dal - „Get ekki þakkað Halldóri nóg"
Árni er fæddur árið 2002 og lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki árið 2021 þegar hann lék 13 leiki í efstu deild og fimm í bikarnum.
Árni er fæddur árið 2002 og lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki árið 2021 þegar hann lék 13 leiki í efstu deild og fimm í bikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann lék alla 27 leiki ÍA á tímabilinu og hélt átta sinnum hreinu.
Hann lék alla 27 leiki ÍA á tímabilinu og hélt átta sinnum hreinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það má ekki gleyma að vinna í andlega þættinum, því ef hann er ekki til staðar skiptir engu máli hversu góður þú ert'
'Það má ekki gleyma að vinna í andlega þættinum, því ef hann er ekki til staðar skiptir engu máli hversu góður þú ert'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég tek því bara, reyni að hlusta ekki á þetta og einblína bara á mig sjálfan enda er ég minn helsti gagnrýnandi'
'Ég tek því bara, reyni að hlusta ekki á þetta og einblína bara á mig sjálfan enda er ég minn helsti gagnrýnandi'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
' Ég fór fljótt að sjá mun á mér eftir að við byrjum að vinna saman og þá kom í ljós að ég er ágætis markmaður'
' Ég fór fljótt að sjá mun á mér eftir að við byrjum að vinna saman og þá kom í ljós að ég er ágætis markmaður'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Marinó Einarsson átti kaflaskipt tímabil í markinu hjá ÍA. Hann, eins og liðið, byrjaði í brekku. Hann leitaði sér aðstoðar og vann sig út úr erfiðleikunum. Seinni hluta tímabilsins var hann einn allra besti markmaður deildarinnar og hjálpaði ÍA að snúa genginu við.

Fótbolti.net ræddi við markvörðinn á dögunum. Hann var spurður fyrst út í tímabilið 2024 sem var gott hjá honum og liðinu.

Meiddist um mitt mót 2024
„Tímabilið í fyrra byrjaði mjög vel. Ég var að spila minn besta fótbolta og fullur af sjálfstrausti. Síðan lendi ég í því sem ekki allir vita að ég ríf á mér liðþófann. Þá fer aðeins að halla undan fæti hjá mér. Það tók mjög á, gat ekki tekið þátt í öllum æfingum og gerði bara mitt besta í að klára þessa 16 leiki sem eftir voru. Tímabilið hjá mér litaðist af þessum meiðslum sem settu smá strik í reikninginn, en liðið stóð sig vel og við ekki langt frá því að ná Evrópusæti," segir Árni sem fór í aðgerð vegna meiðslanna síðasta vetur, strax að tímabilinu loknu.

Þá gáfumst við hreinlega bara upp
ÍA vann svo fyrsta leik tímabilsins 2025, Rúnar Már Sigurjónsson skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu sem tryggði Skagamönnum sigurinn. En svo fór fljótlega að halla undan fæti og gengið var slæmt.

„Við byrjuðum tímabilið á sterkum 1-0 sigri á útivelli á móti Fram og á þeim tímapunkti hélt maður að við værum bara að fara að byggja ofan á tímabilið á undan og halda því gengi áfram. Það varð ekki raunin, við fórum að tapa leikjum og eftir því sem við töpuðum fleiri leikjum minnkaði sjálfstraustið í liðinu. Við máttum ekki lenda undir, þá gáfumst við hreinlega bara upp og flóðgáttirnar opnuðust og fyrir vikið töpuðum við nokkrum leikjum illa."

Óttaðist þú aldrei um stöðu þína í liðinu?

„Ég pældi í hreinskilni ekkert í því. Ef ég verð einhvern tímann á bekknum ætla ég að vera bestur í því. Ég mun vera stuðningsmaður þess sem er í markinu, alveg eins og Dino Hodzic var fyrir mig."

Fyrstur að viðurkenna að ég var lélegur
Árni leit á köflum ekki frábærlega út í marki ÍA fyrri hluta móts, hann fékk mikla gagnrýni. Hvernig leið þér á þessum kafla og með gagnrýnina?

„Ég var í dimmum dal, eftir því sem ég fékk á mig fleiri mörk því minna varð sjálfstraustið. Það er erfitt að fá á sig mörg mörk leik eftir leik. Markmannsstaðan snýst um sjálfstraust, ef þú hefur það ekki þá ertu bara lélegur markmaður, þetta er ekki flóknara en það. Ég fékk gagnrýni sem átti að hluta til rétt á sér, ég er fyrstur að viðurkenna að ég var lélegur. Var liðið að tapa leikjum af því að ég var svo lélegur? Ég held ekki, liðið í heild sinni var langt frá sínu besta og sjálfstraustið okkar lítið. Þá er auðvelt að gagnrýna markmanninn. Ég tek því bara, reyni að hlusta ekki á þetta og einblína bara á mig sjálfan enda er ég minn helsti gagnrýnandi."

Halldór Björnsson hjálpaði Árna með andlega þáttinn
Árni útskýrði hvernig viðsnúningur varð á hans tímabili. Hann þakkar Jóni Þór Haukssyni, fyrrum þjálfara ÍA, fyrir aðstoðina. Helstu þakkirnar fara svo til mark- og markmannsþjalfarans Halldórs Björnssonar.

„Það voru miklar breytingar sem áttu sér stað á sama tíma. Rétt áður en Jón Þór fór kom hann mér í samband við Halldór Björnsson. Ég fór að vinna með honum og rétt eftir það vorum við komnir með nýjan þjálfara. Ég er Jóni mjög þakklátur fyrir að koma mér í samband við Halldór sem er fagmaður fram í fingurgóma. Ég fór fljótt að sjá mun á mér eftir að við byrjum að vinna saman og þá kom í ljós að ég er ágætis markmaður. Ég var í baráttu um gullhanskann alveg til loka og er mjög stoltur af því hvernig mér tókst að snúa þessu öllu saman við. Það má ekki gleyma að vinna í andlega þættinum, því ef hann er ekki til staðar skiptir engu máli hversu góður þú ert."

Hvernig vinnur maður í andlega þættinum?

„Ég get ekki alveg útskýrt það, það er gott að tala við einhvern sem hefur trú á manni. Ég get ekki þakkað Halldóri nóg, hann er svo mikill fagmaður. Ég mæli með honum fyrir unga íþróttamenn sem vilja ná árangri og það skemmir ekki fyrir að hann er markmannsþjálfari líka. Hann hefur bent mér á hluti sem maður pælir ekki í en skipta máli í stóra samhenginu. Þjálfarateymið á líka hrós skilið, það er mikilvægt að umkringja sig fólki sem hefur trú á manni frekar en að hlusta á gagnrýnendur sem berja mann niður."

Hvernig sérðu framhaldið? Langar þig að prófa fyrir þér erlendis á einhverjum tímapunkti?

„Næsta tímabil verður mitt sjötta tímabil í meistaraflokki með ÍA, ég get spilað minn hundraðasta leik í efstu deild á næsta ári. Ég stefni á að halda áfram á sömu braut og ég er á núna og þá eru mér allir vegir færir. Ég er enn bara 23 ára, hef lært helling og á nóg eftir."

„Það er enginn að fara að gera þetta fyrir mann, maður þarf að leggja vinnuna inn sjálfur,"
segir Árni að lokum.
Athugasemdir