Færist nær því að yfirgefa Man Utd - Barca ætlar að kaupa Rashford - Newcastle hefur áhuga á Ederson
   þri 04. nóvember 2025 16:22
Elvar Geir Magnússon
„Stutt“ í að Ronaldo hætti og hann ýjar að því að kveðja þá fótboltann
Ronaldo segir að hann muni líklega gráta þegar hann hætti í boltanum.
Ronaldo segir að hann muni líklega gráta þegar hann hætti í boltanum.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Í nýju viðtali við Piers Morgan segir Cristiano Ronaldo að það sé stutt í að hann leggi skóna á hilluna, án þess þó að nefna sérstaka tímasetningu. Hann stefnir að því að spila með Portúgal á HM á næsta ári.

Ronaldo er 40 ára og er samningsbundinn Al-Nassr til sumarsins 2027. Það er þó mögulegt að hann hætti í boltanum án þess að klára þann samning.

„Það er stutt í að ég hætti. Ég held að ég verði tilbúinn í það. Það verður auðvitað erfið stund. Hún verður erfið. Ég mun líklega gráta. Ég er einstaklingur sem bæli ekki tilfinningarnar innra með mér. Ég er opinn persónuleiki en ég hef verið að búa mig undir framtíð mína síðan ég var sirka 26 ára," segir Ronaldo.

Ronaldo segir að ekkert muni koma í stað fótboltans.

„Ég held að ekkert jafnist á við tilfinninguna við að spila leikinn og þegar maður skorar mark. En allt er með upphaf og enda og ég held að ég verði tilbúinn."

Ronaldo hefur skapað gríðarlega arðbært og vinsælt vörumerki í kringum CR7. Hann og verðandi eiginkona hans, Gergina Rodriguez, eru með fimm börn.

„Ég hef ástríðu fyrir fleiru en fótbolta. Ég mun hafa meiri tíma fyrir mig sjálfan og fjölskyldu mína. Ég vil verða meiri fjölskyldumaður og vera meira til staðar. Ég vil læra meira um fyrirtækin mín. Ég held að ég muni upplifa skemmtilega hluti því hingað til hefur allt snúist um fótboltann," segir Ronaldo.


Athugasemdir