Inter á eftir Guehi - Man Utd sýnir miðjumanni Chelsea áhuga - Stórlið sýna miðjumanni Lille áhuga
   lau 01. nóvember 2025 21:32
Ívan Guðjón Baldursson
Dyche ósáttur og kallar eftir breytingum á VAR-kerfinu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Sean Dyche þjálfari Nottingham Forest var ekki ánægður eftir 2-2 jafntefli gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Dyche var að stýra Forest í þriðja sinn eftir að hafa tekið við liðinu í lok október. Lærlingar hans lentu undir í fyrri hálfleik eftir að Casemiro skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu, sem átti þó líklegast ekki að vera hornspyrna því boltinn fór aldrei útfyrir endalínuna.

Þetta er annar leikurinn í röð sem Forest lendir í svona atviki, eftir að hafa fengið mark á sig í síðustu umferð gegn Bournemouth í kjölfar hornspyrnu sem átti raunverulega að vera markspyrna.

„Ég er búinn að sjá endursýningu af þessu og það er greinilegt að í dag getur aðstoðardómarinn séð hvað er að gerast í 70 metra fjarlægð," sagði Dyche kaldhæðnislega eftir jafnteflið. „Það verður að breyta reglunum, þetta eru tvær svona ákvarðanir á einni viku.

„Auðvitað eigum við að gera betur í að verjast föstum leikatriðum en það er erfitt. Það hefur verið mikið umtal í kringum vandræði liðsins að verjast föstum leikatriðum og það hjálpar okkur ekki þegar dómarar gefa hornspyrnur sem eiga engan rétt á sér.

„Við erum með VAR og ég skil ekki af hverju við megum ekki nota það til að skera úr um svona atriði. Þetta eru skelfilegar ákvarðanir sem VAR gæti leyst á nokkrum sekúndum. Með aðstoð tækninnar tekur ekki meira en 8 sekúndur að skera úr um hvort ákveðið atvik eigi að vera hornspyrna eða ekki.

„Svona ákvarðanir geta skipt miklu máli. Við erum að berjast fyrir lífi okkar og ég skil ekki hvers vegna við notumst ekki við VAR þegar svona atvik leiða til marks."


Forest sneri stöðunni við með tveimur mörkum í upphafi síðari hálfleiks en svo tókst Man Utd að jafna til að bjarga stigi, með frábæru skoti frá Amad Diallo.
Athugasemdir
banner
banner