Pep Guardiola ræddi um titilvonir Manchester City eftir 3-1 sigur liðsins gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Man City sýndi flotta frammistöðu og er í öðru sæti deildarinnar, með 19 stig eftir 10 umferðir. Sex stigum á eftir toppliði Arsenal.
City endaði 13 stigum á eftir Englandsmeisturum Liverpool á síðustu leiktíð en Guardiola hefur tilfinningu fyrir því að þetta tímabil verði betra.
„Vonandi fær Arsenal mark á sig einn daginn," svaraði Guardiola þegar hann var spurður út í titilvonir Man City. Arsenal hefur farið í gegnum síðustu sjö leiki í öllum keppnum án þess að leka stöku marki. Lærlingar Mikel Arteta eru aðeins búnir að fá þrjú mörk á sig í öllum keppnum hingað til á leiktíðinni, gegn Liverpool, Man City og Newcastle.
„Orkan sem okkur vantaði á síðustu leiktíð er komin til baka. Við erum á góðri leið og það eru bara 10 leikir búnir af þessu tímabili, það eru 28 leikir eftir. Liðið er að verða betra og betra með hverjum leiknum og það er mikilvægt fyrir okkur að reyna að halda í við Arsenal á stöðutöflunni."
Erling Haaland heldur markaskorun liðsins uppi en hann er búinn að skora 13 mörk eftir 10 umferðir. Enginn samherji hans hefur skorað meira en eitt mark í deildinni hingað til.
„Við spiluðum án hans gegn Swansea og skoruðum þrjú mörk í þeim leik. Þetta er svipað og að hafa Messi eða Ronaldo í liðinu, þeirra áhrif eru svo mikil að þeir enda á að skora flest mörkin. Auðvitað væri betra ef aðrir leikmenn myndu skora, þeir þurfa að nýta færin sín þegar þau gefast. Það voru nokkrir leikmenn fyrir utan Haaland sem fengu góð færi í dag en klúðruðu þeim."
Fréttamenn stöðvuðu Pep og spurðu hann út í samlíkinguna við Ronaldo og Messi.
„Hafið þið séð tölurnar hjá þessum gaur? Auðvitað er hann á sama stigi og þeir. Eini munurinn er að Messi og Ronaldo gerðu þetta í 15 ár, Erling á eftir að komast þangað með tímanum.
„Hann hefur þetta hungur sem þarf til að vera bestur í heimi. Hann er ótrúlega þægilegur leikmaður að þjálfa, hann er svakalega metnaðarfullur og gefur aldrei neitt eftir.
„Ég er stundum harður við hann en hann tekur því vel. Hann er frábær náungi og það væri mjög erfitt fyrir okkur að gera það sem við erum að gera án hans."
Athugasemdir




