Steven Gerrard svaraði spurningum frá TNT Sports varðandi viðræður hans við Rangers sem réði nýjan þjálfara á dögunum.
Gerrard var meðal efstu manna á óskalista og litu viðræður hans við félagið vel út um tíma, en að lokum afþakkaði Gerrard starfið og var Danny Röhl ráðinn í þjálfarastöðuna.
„Ég var mjög nálægt því að taka við Rangers, ég átti mjög áhugaverðar samræður við eigendurna en þetta var röng tímasetning. Fjölskyldan mín var í Barein þegar viðræðurnar voru í gangi og þetta var mjög mikið fyrir mig að hugsa um á skömmum tíma. Það voru nokkrir hlutir sem ég var óviss um og þess vegna samþykkti ég ekki að halda áfram í viðræðunum," sagði Gerrard.
„Ef ég ætla að taka svona stórri og mikilvægri áskorun þá verður allt að vera fullkomið og á 100% réttum stað. Því miður þá var þetta ekki alveg réttur tími fyrir fjölskylduna mína svo ég dró mig til hlés.
„Ég óska Rangers alls hins besta, þeir eru komnir með stórkostlegan þjálfara og ég mun fylgjast með þeim úr fjarlægð. Hjartað mitt er ennþá hjá Rangers og mun alltaf vera þar en þetta var ekki rétt tímasetning. Ég vil ekki taka við Rangers ef ég er sjálfur ekki 100% tilbúinn í þennan mikilvæga slag með svona risastóru félagi. Ég mun vonandi taka aftur við Rangers einn daginn."
Gerrard gerði magnaða hluti þegar hann stýrði Rangers í þrjú og hálft ár áður en hann var ráðinn til Aston Villa og síðar til Al-Ettifaq.
Athugasemdir


