Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 06. ágúst 2019 19:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 6. sæti
Arsenal
Arsenal er spáð 6. sæti.
Arsenal er spáð 6. sæti.
Mynd: Getty Images
Unai Emery.
Unai Emery.
Mynd: Getty Images
Aubameyang og Lacazette.
Aubameyang og Lacazette.
Mynd: Getty Images
Nicolas Pepe.
Nicolas Pepe.
Mynd: Arsenal
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildin hefst á föstudag. Við höfum síðustu daga verið að hita upp fyrir deildina með því að kynna liðin eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Arsenal er spáð sjöunda sætinu.

Um liðið: Í kringum aldamótin vann Arsenal ensku úrvalsdeildina tvisvar og var með ótrúlega sterkt lið. Henry, Vieira, Bergkamp og fleiri frábærir skipuðu liðið undir stjórn Arsene Wenger. Það eru breyttir tímar hjá Arsenal og hefur liðið ekki náð Meistaradeildarsæti síðustu þrjár leiktíðir.

Staða á síðasta tímabili: 5. sæti.

Stjórinn: Unai Emery fékk það verðuga verkefni að taka við Arsenal af goðsögninni Arsene Wenger. Síðasta tímabil var allt í lagi og lítið meira en það. Arsenal endaði í fimmta sæti í deildinni og tapaði í úrslitum Evrópudeildarinnar. Spánverjinn Emery þarf að sanna sig hjá Arsenal á komandi tímabili.

Styrkleikar: Í liði Arsenal eru frábærir sóknarmenn sem hafa alla burði til þess að fara á kostum á tímabilinu. Lacazette og Aubameyang geta orðið tveir af markahæstu leikmönnum deildarinnar. Özil og Pepe eru einnig mjög hæfileikaríkir fótboltamenn. Þessir leikmenn eru helsti styrkleiki liðsins.

Veikleikar: Sóknarleikurinn er styrkleiki, en varnarleikurinn er aftur á móti rosalegur veikleiki. Ætlar Arsenal virkilega inn í annað tímabili með Mustafi í vörninni? Arsenal keypti William Saliba, ungan franskan varnarmann í sumar, sem var lánaður aftur til Frakklands. Sóknarlega hefur Arsenal styrkt sig fyrir tímabilið, en það virðist hafa gleymst að styrkja varnarleikinn almennilega. Breytist það eitthvað áður en glugginn lokar?

Talan: 35. Lacazette og Aubameyang skoruðu 35 af 73 mörkum Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Það gera tæp 48%.

Lykilmaður: Pierre-Emerick Aubameyang
Sóknarmaður með rosalegt markanef. Hann skorar alltaf sín mörk og hann er því gríðarlega mikilvægur fyrir Arsenal. Það eru liðin fimm ár síðan hann skoraði síðast minna en 20 mörk á einu tímabili. Í fyrra gerði hann 31 mark í 51 leik í öllum keppnum.

Fylgstu með: Nicolas Pepe
Dýrasti leikmaður í sögu Arsenal. Sögusagnir voru um að Arsenal vildi fá Wilfried Zaha frá Crystal Palace, en félagið endaði á því að kaupa hinn eftirsótta Pepe frá Lille. Þetta er 24 ára kantmaður sem átti mjög gott tímabil í Frakklandi á síðustu leiktíð. Hann skoraði 22 mörk og það verður gaman að fylgjast með honum í vetur.

Tómas Þór Þórðarson - Ritstjóri enska boltans hjá Símanum
„Það er svolítið skrítið að lið sem er búið að fá á sig 51 mark tvö tímabil í röð gerði ekki meira fyrir varnarleikinn á sumarmarkaðnum en maður finnur fyrir titringi hjá stuðningsmönnum Arsenal hvað það varðar. William Saliba er stórefnilegur varnarmaður en Skytturnar þurfa meira. Nicolas Pépé bætist við annars flotta sóknarlínu þannig Arsenal mun vafalítið heilla og skora mörk en varnarleikur verður hausverkur og gæti orðið til þess að Emery vinni ekki neitt.“

Undirbúningstímabilið:
Colorado Rapids 0 - 3 Arsenal
Arsenal 2 - 1 Bayern München
Arsenal 3 - 0 Fiorentina
Real Madrid 2 - 2 Arsenal (tap í vítaspyrnukeppni)
Arsenal 1 - 2 Lyon
Angers 1 - 1 Arsenal (sigur í vítaspyrnukeppni)
Barcelona 2 - 1 Arsenal

Komnir:
Dani Ceballos frá Real Madrid - Á láni
William Saliba frá Saint-Etienne - 27 milljónir punda
Gabriel Martinelli frá Itano - 6 milljónir punda
Nicolas Pepe frá Lille - 72 milljónir punda

Farnir:
Aaron Ramsey til Juventus - Frítt
Petr Cech - Hættur
Danny Welbeck - Samningslaus
Stephan Lichtsteiner - Samningslaus
David Ospina til Napoli - 3,5 milljónir punda
Xavier Amaechi til Hamburg - 2,25 milljónir punda
William Saliba til Saint-Etienne - Á láni
Krystian Bielik til Derby - 7,5 milljónir punda
Takuma Asano til Partizan - 900 þúsund pund
Laurent Koscielny til Bordeaux - 4,6 milljónir punda

Þrír fyrstu leikir: Newcastle (Ú), Burnley (H), Liverpool (Ú).

Þeir sem spáðu: Arnar Helgi Magnússon, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.


Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. Arsenal, 122 stig
7. Everton, 108 stig
8. Leicester, 105 stig
9. Wolves, 101 stig
10. West Ham, 88 stig
11. Watford, 75 stig
12. Bournemouth, 66 stig
13. Aston Villa, 65 stig
14. Southampton, 59 stig
15. Crystal Palace, 53 stig
16. Burnley, 39 stig
17. Newcastle, 33 stig
18. Brighton, 23 stig
19. Norwich, 19 stig
20. Sheffield United, 13 stig



Skráðu þig í Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net
Verðlaun í boði Budweiser eftir allar umferðir.
Kóðinn til að skrá sig er: sjkbpw
Skráðu þitt lið til leiks!
Athugasemdir
banner