Jamie Carragher fyrrum varnarmaður Liverpool var ekki sáttur með frammistöðu Darwin Nunez framherja liðsins í grannslagnum í kvöld.
Liverpool tapaði leiknum 2-0 og þarf mikið að ganga upp svo liðið endi uppi sem Englandsmeistari á síðasta tímabili Jurgen Klopp sem stjóra liðsins.
Nunez komst í dauðafæri þegar um tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma í fyrri hálfleik þegar hann var einn á móti Jordan Pickford en negldi boltanum beint í markvörðinn.
„Færið sem Nunez klikkaði á er ófyrirgefanlegt á þessu stigi. Það er ekki ásættanlegt þegar þú ert í titilbaráttu. Mér fannst Liverpool vera með stjórnina í upphafi síðari hálfleiks og ef þeir myndu ná inn einu hefðu þeir náð tveimur," sagði Carragher.
Þá gagrýndi Carragher einnig Mohamed Salah.
„Hann hefur verið skugginn af sjálfum sér meiri hlutann á tímabilinu, sérstaklega síðan hann kom til baka úr meiðslum. Hann er Liverpool goðsögn, ofurstjarna en hann hefur verið langt frá sínu besta," sagði Carragher.