Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fös 22. maí 2020 07:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ingibjörg: Endalaus tími og vinna en lítil sem engin virðing til baka
Stundum þarf bara að segja stopp
Ingibjörg er ekki sátt við þá takmörkuðu virðingu sem konur í íþróttum fá.
Ingibjörg er ekki sátt við þá takmörkuðu virðingu sem konur í íþróttum fá.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hún er ánægð með að umræðan sé komin af stað og með framtak Selfoss að hækka staðalinn í kvennaboltanum.
Hún er ánægð með að umræðan sé komin af stað og með framtak Selfoss að hækka staðalinn í kvennaboltanum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
...en sömu neikvæðu athugasemdirnar koma alltaf upp og stundum þarf bara að segja stopp.
...en sömu neikvæðu athugasemdirnar koma alltaf upp og stundum þarf bara að segja stopp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg og Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Ingibjörg og Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Mynd: Ingibjörg Sigurðardóttir
Anna Björk Kristjánsdóttir gekk í raðir Selfoss á dögunum.
Anna Björk Kristjánsdóttir gekk í raðir Selfoss á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael Nikulásson.
Mikael Nikulásson.
Mynd: Hulda Margrét
Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona og leikmaður Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni, lét vita af óánægju sinni á samfélagsmiðlinum Twitter fyrr í vikunni vegna umræðu um launamál í Pepsi Max-deild kvenna.

Umræðan kviknaði í kjölfar ummæla Mikaels Nikulássonar, þjálfara Njarðvíkur í 2. deild karla, í hlaðvarpsþættinum Dr. Football. Ummælin vörðuðu laun Önnu Bjarkar Kristjánsdóttur sem gekk í raðir Selfoss í vikunni frá PSV Eindhoven í Hollandi. Mikael sagði í þættinum að Anna væri að fá meira borgað en leikmenn í kvennabolta eiga að fá, að hún væri á hærri launum en „flestir leikmenn í efstu deild karla". Færslur Ingibjargar má sjá hér að neðan.



Fréttaritari Fótbolta.net hafði samband við Ingibjörgu og spurði hana út í hennar færslur.

Hlýtur að vera hægt að finna einhvern milliveg
Ingibjörg segir þetta „þreytt dæmi" og var fyrsta spurningin út í þau orð. Er þreytan út í launamismuninn milli leikmanna í efstu deild karla og leikmanna í efstu deild kvenna? Hvernig finnst Ingibjörgu að ætti að ákveða laun leikmanna? Finnst henni að það ætti að ákvarðast út frá leikdagstekjum félaganna eða á að miða við aðrar tekjur?

„Ég tel mig ekki vita nægilega mikið um það hvaða tekjur koma út frá leikjum hjá félögum, bæði hvað varðar áhorfendur og sjónvarpsleiki og því vil ég ekki tjá mig um eitthvað sem ég veit ekki nægilega mikið um. Umræðan um launamuninn er ekki það sem pirrar mig mest en auðvitað er það stór hluti af því," segir hún.

„Ég er enginn sérfræðingur um þessi mál en eftir að hafa spilað í tvö ár í Svíþjóð og núna í Noregi þá sé ég að lið í þessum deildum leggja mikið upp úr styrktaraðilum og kemur stór meirihluti af launakostnaðinum út frá þeim. Stóru félögin sem eru með stór karlalið eru síðan mögulega einnig að taka hluta af tekjum sem koma inn karlamegin og nýta þær í að styrkja sín kvennalið."

„Ég skil vel að þetta getur verið erfiðara fyrir félög á Íslandi þar sem augljóslega eru tekjur liða í stærri deildum meiri en það hlýtur að vera hægt að finna einhvern milliveg og tel ég styrktaraðila geta komið sterka þar inn. Eftir að launamunur karla- og kvennaliðs Stjörnunnar var opinberaður fyrr í mánuðinum fékk fólk að sjá þetta svart á hvítu og ég veit að Stjarnan er ekki eina liðið á Íslandi með þennan svakalega launamun,"
segir Ingibjörg.

Virðingin skiptir máli
Ingibjörg segir að umræðan um launamismuninn pirri hana ekki mest, heldur sé það virðingarleysið.

„Eins og ég segi er ég ekki sérfræðingur um þessi mál og því væri áhugavert að heyra frá félögum eða öðrum sem vita meira um hvernig málin standa á Íslandi. Launamunur er samt ekki það eina sem skiptir máli heldur er það almenn virðing fyrir íþróttakonum sem ég er hvað þreyttust á og þetta á ekki aðeins við fótboltann, heldur aðrar íþróttir líka."

Þarf að gefa stelpum tækifæri til að sinna fótboltanum betur
Hún nefnir 'strögglið' að vera fótboltakona í færslu sinni. Hvað á hún við með þessum orðum sínum?

„Þegar ég tala um strögglið að vera fótboltakona þá er ég að tala af minni reynslu og þeirra sem eru í kringum mig. Að spila á Íslandi og fá lítil sem engin laun, þá meina ég laun sem ná ekki einu sinni að borga leigu á húsnæði, þurfa þá að vera í vinnu eða hlutastarfi til þess að geta lifað mánuðinn af og mögulega eiga lítinn sem engan pening fyrir mat í lok mánaðar. Margar eru í námi til þess að undirbúa sig fyrir lífið eftir fótboltann því að ekki erum við að ná að safna miklum pening upp á þessum tíma sem við erum í fótbolta."

„Fyrir þremur árum þegar ég spilaði síðast á Íslandi var ég í skóla, vinnu og síðan fótbolta þar sem dagurinn minn byrjaði oft klukkan sex á morgnana því það var eini tíminn fyrir aukaæfingu. Síðan var dagurinn búinn á milli átta og níu á kvöldin eftir æfingu með liðinu og þá tók lærdómurinn við."

„Ég veit að margar stelpur í íþróttum á Íslandi lifa svona og vilja ná langt en fá einfaldlega ekki tækifæri til þess. Ef við viljum taka kvennafótboltann á Íslandi upp á næsta stig þá þurfum við að gefa stelpum tækifæri til þess að æfa meira, endurheimta betur og sinna sinni íþrótt betur. Það að sjá að Selfoss er að leggja sitt af mörkum og hækka standardinn ætti að vera eitthvað sem allir eiga að fagna."


Ingibjörg, sem er 22 ára, fór út í atvinnumennsku til Djurgården í Svíþjóð í desember 2017 eftir að hafa spilað með Grindavík og Breiðablik hér á landi.

„Ég var mjög heppin að komast út í atvinnumennsku beint eftir menntaskóla, en það þýðir ekki að ég hafi komist í lúxuslíf. Ég er þakklát fyrir það að geta lifað á því að spila fóbolta. Ég lifi mánuðinn af, en ekki mikið meira en það. Það eru auðvitað forréttindi að spila í atvinnumennsku en maður fórnar einnig miklu, tíma með fjölskyldu- og vinum, atvinnu- og námstækifærum og einnig hlutum eins og að eignast barn, og það verður þreytandi að leggja endalausan tíma og vinnu á sig og fá litla sem enga virðingu til baka."

Fagnaðarefni að hlutirnir séu að breytast
Ingibjörg hrósar Selfossi fyrir að hækka staðalinn kvennamegin.

„Hlutirnir eru að breytast og kvennafótboltinn er að stíga upp og ég fagna því svo innilega að félög á Íslandi séu að taka skref í rétta átt, en sömu neikvæðu athugasemdirnar koma alltaf upp og stundum þarf bara að segja stopp. Ég get skilið að það er ekki mögulegt einmitt núna fyrir öll félög á Íslandi að minnka launabilið á milli karla- og kvennaliða sinna, en ég get ekki skilið virðingarleysið sem er enn þann dag í dag hjá sumum gagnvart konum í íþróttum," sagði Ingibjörg að lokum.
Athugasemdir
banner
banner