„Þetta eru frábærar fréttir. Félagið er að taka stórt skref í sinni stuttu sögu, ég gæti ekki verið sáttari," sagði Gylfi Tryggvason, þjálfari Grindavíkur/Njarðvíkur, um Natöshu Anasi en hún gekk til liðs við félagið í gær.
„Maður er svo ánægður að vera hluti af kvennaliði sem er að taka skref fram á við. Kvennaboltinn er búinn að vera svolítið í umræðunni í heiminum og á Íslandi. Við erum klárlega að taka skref fram á við með þessu."
Koma Natöshu er stórt fyrir Grindavík/Njarðvík sem verður nýliði í Bestu deildinni næsta sumar.
„Við getum byrjað á því að þetta er frábær leikmaður, einn besti hafsentinn í deildinni. Það er ótrúlega gott fyrir okkur að mögulega besti hafsent deildarinnar sé að velja að spila fyrir Grindavík/Njarðvík, það er stórt fyrir okkur," sagði Gylfi.
„Hún er óumdeild manneskja af öllum sem hafa spilað með henni, það tala allir eins um hana. Hún er frábær liðsfélagi, leiðtogi og í klefanum. Þetta eykur ennþá meiri sýnileika á liðinu. Þetta er frábær fyrirmynd sem er núna í okkar liði, við getum talað um það hvort þetta sé ekki innblástur fyrir ungar stelpur á Suðurnesjunum að fara æfa fótbolta. Að geta horft á landsliðskonu spila fyrir sitt lið sem maður dreymir um að spila fyrir í framtiðinni."
„Það voru margar ástæður fyrir því að vilja spila fyrir Grindavík/Njarðvík áður en hún kom. Er þetta auka ástæða? Já, klárlega. Viltu spila með frábærum leikmönnum í frábæru liði þar sem er geggjuð liðsheild og frábærir karakterar. Við pælum í þessu öllu, við erum ekki bara að leita að góðum leikmönnum, ef þú ert góður leikmaður en skítakarakter þá viljum við ekki fá þig."
Sjáðu viðtalið við Gylfa í heild hér fyrir ofan
Athugasemdir
























