Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 06. maí 2008 07:30
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 11. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Stefán Pálmason
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-9 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sætinu voru Magnamenn sem fengu 59 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Magna.


11. Magni
Búningar: Svört og hvít, svartar buxur, svartir og rauðir
Heimasíða: http://www.magnigrenivik.is

Magni frá Grenivík naut góðs af því á síðustu leiktíð að aðeins eitt lið féll úr 2. deild. Fyrir vikið hélt liðið sér uppi enda hafnaði liðið í 9. sæti. Lengi vel leit ekki út fyrir að liðið myndi halda sæti sínu í deildinni því þegar þrjár umferðir voru eftir var liðið í neðsta sæti.

Það var því algjör úrslitaleikur á Hornafirði þegar liðið sótti Sindra heim sem var tveimur stigum fyrir ofan Magna. Magnaðir Magnamenn sýndu þá þann karakter sem hefur einkennt liðið undanfarin ár og skoruðu tvö mörk á síðasta stundarfjórðungi leiksins og komust upp fyrir Sindra að stigum.

Nú eru tólf lið í deildinni og tvö lið sem falla úr deildinni. Magnamenn þurfa því að byggja ofan á það sem liðið gerði á síðustu leiktíð og nýta þá reynslu sem menn öðluðust í fyrra.

Að þessu sinni er Magna spáð falli í 3. deild og vilja leikmenn liðsins eflaust blása á slíkar hrakspár. En til þess að það gerist þarf liðið að bæta sinn leik töluvert frá því á síðustu leiktíð. Undirbúningstímabilið hjá liðinu hefur ekkert verið alslæmt. Liðið vann tvo leiki af fimm í Lengjubikarnum þar sem liðið lagði meðal annars Völsung sannfærandi að velli.

Það er ljóst að mikið hefur verið fagnað í gjörvöllum Eyjafirðinum þegar Ásgeir Örn Jóhannsson ákvað að ganga aftur í raðið Magna eftir að hafa leikið með Hvöt á síðustu leiktíð. Ásgeir hefur verið iðinn við kolann undanfarin keppnistímabil og er koma hans þvílíkur hvalreki í fjörurnar við Eyjafjörðinn. Fyrir utan þennan liðsstyrk sem verður gífurlega mikilvægur fyrir Magna í sumar þá hefur liðið fengið nokkrar óþekktar stærðir sem koma meðal annars úr Hömrunum og Vinum.

Liðið hefur hins vegar orðið fyrir töluverðri blóðtöku en Þorsteinn Þorvaldsson, sem fór mikinn í liði Magna á síðustu leiktíð og skoraði meðal annars markið sem tryggði Magna áframhaldandi sæti í deildinni, ákvað að söðla um og ganga í raðir KA. Þorsteinn skoraði tæplega helming marka liðsins eða sjö mörk í átján leikjum í fyrra svo ljóst er það er stórt skarðið sem hann skilur eftir sig.

Styrkleikar: Karakterinn sem einkennir lið Magna er eitthvað sem mun reynast þeim ansi dýrmætt í sumar. Liðið hefur sýnt það í gegnum tíðina að karakterinn í liðinu er ansi sterkur og sérstaklega þegar á bjátar. Liðið vann tvo frábæra útisigra á síðustu leiktíð þar sem liðið lagði ÍR að velli í Mjóddinni og tryggði sér svo sætið í deildinni með að leggja Sindra að velli á Hornafirði. En slíkir karaktersigrar þurfa að vera fleiri í sumar ætli liðið sér ekki niður í 3. deild þetta árið.

Veikleikar: Það voru ansi margar brotalamir í leik liðsins í fyrra. Liðið skoraði aðeins 15 mörk á leiktíðinni ásamt því að fá á sig 44 mörk. Slíkt er óásættanlegt ef lið ætlar sér að halda sæti sínum í 2. deild. Varnarleikur liðsins verður að batna sem og sóknarleikurinn. Breiddin í leikmannahópnum sem og sóknarleikurinn er þeirra helsti veikleiki því liðið skoraði fæst mörk allra liða í deildinni í fyrra.

Þjálfari: Atli Már Rúnarsson. Mun heldur betur mæða á Atla í sumar á milli stanganna því hann mun eflaust fá nóg að gera. Gerði vel í að halda liðinu uppi í fyrra en nú reynir fyrst á þennan magnaða markvörð.

Lykilmenn: Atli Már Rúnarsson, Ásgeir Örn Jóhannsson og Birkir Hermann Björgvinsson.

Komnir: Ásgeir Örn Jóhannsson frá Hvöt, Birkir Hermann Björgvinsson frá Vinum, Friðrik Ragnar Friðriksson frá Vinum, Gunnar Sigurður Jósteinsson frá Völsungi, Halldór Áskell Stefánsson frá Dalvík/Reyni, Hákon Arnarson frá Hömrunum, Jónas Halldór Friðriksson frá Völsungi, Kristófer Jónasson frá Víkingi Ó., Sigurður Hjörtur Þrastarson frá Hömrunum, Símon Símonarson frá Hömrunum, Sveinn Orri Vatnsdal Sveinsson frá Vinum.

Farnir: Arnviður Ævarr Björnsson í Hamrana/Vini, Áskell Jónsson í Dalvík/Reyni, Stefán Ingi Gunnarsson í KB, Þorsteinn Þorvaldsson í KA.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. Magni 59 stig
12. Hamar 30 stig
Athugasemdir
banner
banner