Í síðustu viku var greint frá því að taka eigi upp VAR myndbandsdómgæslu í færeysku Betri-deildinni á komandi ári.
Birgir Jóhannsson, formaður ÍTF, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 og var spurður að því hvort það væru vonbrigði að Færeyjar væru á undan okkur að taka upp VAR?
Birgir Jóhannsson, formaður ÍTF, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 og var spurður að því hvort það væru vonbrigði að Færeyjar væru á undan okkur að taka upp VAR?
„Nei, á sama tíma og við erum að ræða hækkanir hér þá fylgir því mikill kostnaður að taka inn VAR. Það þýðir fleiri dómarar og fleiri myndavélar. Það er ekki ákall hjá félögunum að fá VAR," segir Birgir.
Fjallað hefur verið um að kostnaður íslenskra félaga í mótahald og dómara eigi að hækka. Birgir segir því VAR ekki ofarlega á blaði eins og staðan er. Færeyingar hyggjast til að byrja með vera með VAR á völdum leikjum og Birgir setur spurningamerki við að taka þetta upp með þeim hætti.
„VAR mun koma hingað, á því liggur enginn vafi. Að vera með þetta í einum og einum leik... ég veit ekki með það. VAR mun frekar koma þegar við munum endursemja um sjónvarpsréttinn og skoða framleiðsluhlutann. Getum við sett upp fastar myndavélar til dæmis?"
Þá segir hann að verið sé að þróa lausnir svo hægt sé að taka upp VAR án þess að kostnaðurinn sé eins mikill og hann er í dag.
„FIFA og UEFA vilja koma VAR út um allt en gera sér grein fyrir því að í fullt af deildum er ekki til peningur fyrir þetta. Það er verið að reyna að finna leiðir til að þetta sé ódýrara og virki," segir Birgir.
Athugasemdir

