Amorim hleypir Mainoo ekki burt - Tottenham vill Van Hecke og Thiago - Gæti Xavi tekið við Tottenham?
   mán 15. desember 2025 16:19
Fótbolti.net
U15 landsliðið fékk skell gegn Englandi
Fannar Karvel skrifar frá Englandi:
Mynd: KSÍ
Mynd: Fannar Karvel
Mynd: Fannar Karvel
U15 landslið Íslands tapaði 0-7 gegn Englandi í fyrsta leik sínum á þróunarmóti UEFA sem fram fer á Englandi.

Ísland byrjaði leikinn vel og átti í fullu tré við stjörnum prýtt lið Englendinga. Strákarnir okkar lágu djúpt og beittu skyndisóknum af miklu krafti en þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var augljóst í hvað stefndi og framherji Arsenal U15, Jaden Maghoma, sá til þess að Englendingar fóru inn í hálfleikinn með þriggja marka forystu og Jaden með tvö mörk og stoðsendingu í fyrri hálfleik.

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, leyfði öllum að snerta grasið í þessum fyrsta leik mótsins og síðasta skipting leiksins var á 70. mín þegar Steindór Orri markmaður fór af velli fyrir Lárus Högna.

Enska liðið var mun sterkara, sneggra og grimmara, strákarnir okkar sýndu þeim alltof mikla virðingu og greinilegt að stressið var ekki að hjálpa þeim að þessu sinni. Einnig var greinilegt að framþróun Íslensks fótbolta, gervigrasið, var ekki að hjálpa okkar mönnum þar sem leikurinn var spilaður á blautum og lausum grasvelli sem enginn þeirra er vanur enda 95% allra leikja í yngri flokkum spilaðir á gervigrasi.

Getumunur liðanna var töluverður, bæði líkamlega og tæknilega en með smá bætingu í hugarfari, minni virðingu fyrir andstæðingnum og meira af Íslensku geðveikinni getur liðið vel strítt þessum stóru knattspyrnuþjóðum.

Fjölmenni var á leiknum, um 200 manns skv. lauslegri talningu en auk foreldra leikmanna voru þarna þjálfarar annarra liða í mótinu og umboðsmenn og scoutar frá fjölmörgum liðum m.a. Ipswich, Leichester o.fl. enskra liða auk okkar eigin Bjarka Gunnlaugs.

Við verðum að trúa því að fall sé fararheill og Ómar Ingi blási víkingaandanum í mannskapinn fyrir næsta leik á móti Ítalíu á miðvikudaginn kl.12

Mynd: KSÍ

Athugasemdir
banner